22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Steingr. Jónsson:

Hæstv. ráðherra líkti þessu máli við leikhúshvell, eða að minsta kosti skildi eg hann svo, að þau ummæli ættu einnig að ná til sjálfs málsins, þingsályktunartillögunnar, sem hér er til umræðu. Um ræðu hv. 5. kgk. þm. skal eg láta þá deila, hann og hæstv. ráðherra. En eg get ekki fallist á, að þessi tillaga, um að skipa nefnd til að rannsaka aðgerðir stjórnarinnar í bankamálinu og fleiri málum, sé leikhúshvellur.

(Ráðherra: Eg sagði það ekki).

Það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi ekki meint þetta með orðum sínum; þá hefi eg misskilið hann.

Þetta mál er mjög þýðingarmikið fyrir pólitískt og móralskt líf þjóðarinnar. Það er enginn vafi á því, að ýmsar athafnir stjórnarinnar hafa vakið mjög mikla æsing og óróa í hugum manna út um alt land. Eg veit til þess, að þær hafa vakið óhug hjá fjölda manna, alveg án tillits til flokkaskiftingar. Það getur vel verið, að mótstöðumenn stjórnarinnar, minni hlutinn, hafi gert mestan hvellinn, en æsingin og óhugurinn var áreiðanlega ekki minni hjá mörgum meirihlutamönnum, sem áður höfðu verið fylgjandi hæstv. ráðherra. Og þetta ástand hefir stöðugt orðið verra og verra, vegna hinnar skaðlegu bardagaaðferðar, sem beitt hefir verið, sérstaklega í málgögnum stjórnarinnar. Það er komið vel á veg með að spilla móral þessarar þjóðar, sérstaklega hinum opinbera móral. Eg tala nú ekki um álit landsins út á við; því það er farið. — Það ríður á að stöðva þetta, sem er að gerast, sem allra fyrst, það verður að hreinsa til, eins og hægt er, og rannsaka málin. Eg skal ekki leggja neinn dóm á það, hjá hverjum sökin er, en áreiðanlega þarf að gera óhlutdræga rannsókn; það þurfa að koma fram betri og skýrari gögn en hingað til hafa komið fram, til þess að þjóðin geti dæmt um það, hver er sá seki.

Það er fyrst og fremst bankamálið, sem hér er um að ræða, og rannsaka þarf. Alt það mál hefir verið stór-háskalegt frá byrjun. Skipun rannsóknarnefndarinnar var stór-háskaleg. Það var deilt um það, hve nauðsynleg hún væri, en það var áreiðanlega hættulegt fyrir lánstraust og hag bankans, að skipa slíka rannsóknarnefnd, eins og á stóð í aprílmánuði 1909, enda viðurkendi jafnvel hæstv. ráðherra það þá, en hann taldi rannsóknina nauðsynlega. Ef bankinn hefði ekki verið eins vel stæður og hann var, hefði sú stjórnarathöfn auðveldlega getað komið honum á kaldan klaka.

Næsta stigið í þessu máli er afsetning bankastjórnarinnar. Jafnvel þó maður gerði ráð fyrir, að hún hefði verið réttmæt, þá var sú stjórnarframkvæmd áreiðanlega háskaleg, eins og hún kom fram. Það var háskalegt að þurfa að reka frá fyrirvaralaust alla stjórn aðalpeningastofnunar landsins, og það með jafn hörðum orðum og viðhöfð voru í frávikningarskjalinu. Eg ímynda mér, að það hefði þótt áræðinn maður í Danmörku, sem hefði þorað að fara eins að, t. d. við Nationalbankann þar. Eg er viss um, að danskur stjórnmálamaður hefði talið slíkt alveg óhugsandi.

Og svo er annað. Orðalagið í frávikningarbréfinu var þannig, að menn hlutu blátt áfram að furða sig á því, að mennirnir voru látnir ganga lausir. Menn hlutu að búast við því, eftir orðfærinu að dæma, að bankastjórarnir yrðu settir í varðhald, og hafin sakamálsrannsókn gegn þeim. En það varð ekki. Ráðherra lýsti þvert á móti yfir, að bankastjórarnir væru í alla staði vandaðir og heiðarlegir menn, enginn grunaði þá um annað.

Allar þessar aðfarir hlutu að vera stórhættulegar út á við fyrir virðingu bankans og lánstraust, og fyrir lánstraust landsins yfirleitt. Slík stjórnarathöfn hlýtur að hafa haft skaðleg áhrif á fjármálalega virðingu landsins erlendis. Enda hygg eg, að það hafi komið fram, og það svo greinilega, að flestir smákaupmenn á landinu munu hafa orðið varir við það. Og svo er hneisan, sem Landsbankinn og landið hefir orðið fyrir út af þessu. Að hugsa sér annað eins og það, að Landsbanki Íslands skyldi verða að láta sér lynda, að útlendur banki sendi þjóna sína til að rannsaka hag hans, útlendur banki, sem átti lítilfjörlega fjárhæð hjá Landsbankanum. Auk þess var þessi smávægilega skuld vel trygð, eftir því sem hæstv. ráðherra segir sjálfur, því að hann hefir haldið því fram, að Landmandsbankinn hafi haft verðbréf frá Landsbankanum að handveði fyrir miklum hluta skuldarinnar. Þar að auki hafði hann aðra handhæga tryggingu í höndum, þar sem voru bankaobligationirnar — upp á 500,000 kr. — sem hann hafði til sölu fyrir Landsbankann. Þrátt fyrir alt þetta sér Landmandsbankinn sig knúðan til að láta tvo þjóna sína rannsaka hag Landsbankans. Það hefir margur Íslendingur fundið til slíkrar hneisu.

Svo er enn eitt athugavert við þessa frávikningu. Bankastjórarnir fráviknu voru ekki að eins bankastjórar, tveir af þeim voru auk þess gamlir, velmetnir embættismenn. Þessir menn eru dregnir niður í saurinn. Maður, sem hefði getað verið orðinn forseti í hæstarétti þessa lands, er dreginn niður í saurinn. Eg skal ekkert tala um þessa menn sem privatmenn, það gerir lítið til þó að sonur Jóns á Gautlöndum og sonur Eggerts Briem ættu í hlut; hitt er verra, að dómstjóri landsins og elzti kennarinn við prestaskólann voru dregnir þannig niður í sorpið. — Það hafa áreiðanlega engar sannanir komið fram, sem gætu réttlætt nokkuð í áttina til slíks. Þess vegna þarf að rannsaka þetta mál.

En eg skal leyfa mér að benda á, að það eru fleiri gerðir stjórnarinnar, þótt þær séu ekki eins þýðingarmiklar, er vakið hafa megnan óhug hjá þjóðinni. Eg skal sérstaklega nefna eitt mál, sem háttv. 5. kk. þm. hefir nefnt og það er Thorefélagssamningurinn. Hann hefir vakið óánægju meðal manna í báðum flokkum. Það hefir sannarlega ekki verið farið vel með það mál. Þessi samningur var gerður til 10 ára og er það út af fyrir sig athugavert. Þessi óánægja út af samningnum er því ekki undarleg, ekki sízt ef menn athuga vel áætlunina fyrir árið 1910, því að sjaldan hafa strandferðir verið óhagstæðari, aðminsta kosti fyrir Norður- og Austurlandi, en það ár.

Hæstv. ráðherra tók það nú fram, og hann sagði það berum orðum hér í þingdeildinni í apríl 1909, að Heimastjórnarmenn hefðu gert aðsúg að bankanum. Eg mótmælti því þá og eg mótmæli því enn, að Heimastjórnarmenn hafi reynt að spilla fyrir bankanum. Þeir hafa þvert á móti reynt að girða fyrir illar afleiðingar, er leiða kynnu af hátterni landsstjórnarinnar. Það hryggir mig að hæstv. ráðherra hefir tekið þessi ummæli upp aftur, sem eg álít með öllu óviðeigandi.

Hæstv. ráðherra hefir skýrt frá ástæðunum fyrir afsetningu bankastjórnarinnar og skal eg ekki orðlengja um það, né heldur um hitt atriðið, er mikið hefir verið deilt um, hvort bankastjórunum hafi verið vikið frá fyrir fult og alt eða um stundarsakir.

En eg vildi leyfa mér að spyrja um eitt atriði út af ummælum hæstv. ráðherra: Er það svo, að erlendir bankaþjónar hafi skipað eða sagt fyrir, hvað gera skyldi í þessu máli? Þessu er fylsta ástæða til að mótmæla og eg tel þetta atriði eitt nægilegt til þess, að rannsóknarnefnd sé skipuð. Það er hart, ef erlendir bankaþjónar geta skipað landsstjórn Íslands að gera það sem þeim gott þykir. Skuldin við Landmandsbankann var bæði lítil og vel trygð. Það er líka óskiljanlegt, hví ekki mátti bæta úr þessu síðar.

Háttv. þingm. Ak. (S. H.) mælti með breyttill. sinni og hélt því fram, að tillaga sú, er nú er rætt um, væri að eðli sínu hlutdræg. En eg held, að hinum háttv. þingmanni hafi farið hér, sem oft vill verða, að hann hafi séð flísina í auga bróður síns, en sést yfir bjálkann í sínu eigin auga, séð smáögnina, en ekki komið auga á hina stærri. Hér er um mikið að tefla. Húsbóndaréttur hinnar háttv. þingdeildar er „krenktur“, er bankastjórninni er vikið frá fyrir fult og alt. Það er misskilningur hjá háttv. þingm. Ak. (S. H.), að deildin geri sig hér að dómara. Hún annast að eins um rannsókn á málinu. Hún ætlar ekki að dæma um það í einstökum atriðum, en hinu sker hún úr, hver eigi að vera gæzlustjóri Landsbankans.

Eg fjölyrði svo ekki meira um þetta; mér fanst eg gæti ekki komist hjá að gera grein fyrir atkvæði mínu.