22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Ráðherra (B. J.):

Eg geri ráð fyrir, að engum þeim, er hlýtt hafa á þessar umræður, muni dyljast, hvað hér sé um að tefla: Annars vegar er hagur almennings, en hins vegar hagsmunir örfárra einstaklinga. Það er ekki í fyrsta sinn í sögu heimsins, að þessi leikur er háður. Það er sífelt Hjaðningavíg á milli þeirra. Stjórn þessa lands telur það almennings hags vegna alveg nauðsynlegt að skifta um bankastjórn um stundar sakir. Gæzlustjórarnir þóttu ekki lengur hafandi til þeirrar stöðu, er þeir áttu að gegna, og var því vikið úr henni. Þeir mistu þessa aura, er þeir höfðu fyrir þessi hjáverk sín, en höfðu nóg fé úr landssjóði fyrir önnur störf. Þetta er nú alt og sumt. Af þessu smáræði stafar alt þetta uppþot. Það er talið sjálfsagt, að hagur almennings á að þoka fyrir hagsmunum þeirra. Og í þetta mál á nú að eyða hálfum þingtímanum. En það er mergurinn málsins og annað ekki, hvort hagur einstakra manna á að vera í fyrirrúmi fyrir gagnsmunum almennings. Í þessu máli er beitt hverskonar ráðum, sem hvorki eru fögur, réttlátleg né sæmileg. Þingmenn hafa komið fram sem svæsnir „prokuratorar“. Því er haldið fram, að stjórnin hafi hagað sér þannig í bankamálinu, til þess að stofna bankanum í hættu, en þetta eru þau tilhæfulausustu ósannindi. Hér er gersamlega snúið við sannleikanum, sem óhæfra „prókuratora“ er siður.

(L. H. B.: Eg bendi háttv. forseta á, að hæstv. ráðherra segir „óhæfra prókuratora“.)

Hver hefir orðið?

(Forseti: Hæstv. ráðherra hefir orðið).

Bankarannsóknin var eingöngu gerð í því skyni að styrkja traust bankans, til hennar stofnað af því, að orð fór af óreglu í bankanum. Bankarannsóknin hlaut að styrkja hag bankans. Ef óánægjan með stjórn bankans reyndist við rannsóknina að vera óréttmæt, hlaut bankanum að verða hagur að henni, er sannleikurinn væri leiddur í ljós. Ef hagur bankans reyndist í ólagi, var hægt að laga hann.

Háttvirti síðasti ræðumaður (4. kk. þm.) er bróðir annars hins frávikna gæzlustjóra. Ef svona lagaðir dómarar eiga að dæma í málinu, þá bið eg guð að hjálpa réttlætinu í þessu landi. Hann vílar ekki fyrir sér að segja það fullum fetum, að farið hafi verið eftir skipun útlendra bankaþjóna um frávikning bankastjóranna. Háttv. þm. Strandas. (A. J.) hefir tekið fram, hvað satt er í þessu. Háttv. þm. hlýtur að vita, að hann fer hér með rangt mál. Fyrst og fremst er ekki rétt að kalla bankamennina bankaþjóna. Þeir báru ekki við að skipa né leggja til, en þeir að eins bentu á, að það gæti stafað hætta af því, ef fráviknu bankastjórarnir væru látnir halda áfram störfum sínum, því að af því gæti leitt það, að Landmandsbankinn segði upp láni því, er hann átti hjá Landsbankanum. Svo er þessu snúið þannig við, sem landsstjórnin hefði farið eftir skipun þeirra. Er hægt að koma ófeilnar fram sem „prókurator“ en þetta? Út af því að rætt er um, að gæzlustjórunum er vikið frá embættum, sem þeir höfðu gegnt slælega, þá kemur háttv. 4. kgk. þm. (Stgr. J.) með þá frétt, að annar þeirra hefði nú getað verið orðinn dómari í hæstarétti. Eg skal af hlífð ekki fara langt út í það, en leyfi mér að spyrja háttv. 4. kgk. þm., hvort honum séu með öllu ókunn viðskifti hæstaréttar og og bróður hans á síðari árum. —

Það, sem fundið hefir verið að Thore-samningnum, er tilhæfulaus uppspuni, bláber vitleysa, og ranghermi.

Mönnum hefir orðið tíðrætt um, hvílíkum stórháska landinu og Landsbankanum hafi verið stofnað í með ráðstöfunum landsstjórnarinnar. En þeir gá ekki að, hvaða hætta hefði getað stafað af því, ef hún hefði látið alt ógert.

Það er kátlegur útúrsnúningur hjá háttv. 4. kgk. þm. að eg hefði kallað tilöguna leikhúshvell. Eg álít hana meinlausa, en óþarfa. Annars álít eg þetta mál dómstólamál. En ef þingdeildinni þykir vissara að skipa þessa nefnd, þá er það guðvelkomið fyrir mér. Eg er ekki hræddur við dóminn. En eg get ekki hugsað mér bróður annars gæzlustjórans óhlutdrægan dómara í þessu máli. Eg beiðist ekki traustsyfirlýsingar, dettur það ekki í hug.

(Júlíus Havsteen: Skárra væri það nú.)

Vitsmunalegt frá þeim manni, eins og von var til.

Það er óþarft að fara fleirum orðum um hina ofsafengnu framkomu manna í þessu máli. Eg bið háttv. þm. Borgf. (Kr. J.) afsökunar á því, að eg sinti ekki ræðu hans og hlýddi ekki á hana. Hún var, að eg ætla, lítið annað en endurtekning á svörum bankastjórnarinnar gegn rannsóknarnefndinni.

Eg get þess, að mér kemur ekki á óvart ofsóknir háttv. kgk. þm. nr. 5 — nú man eg númerið —

(Lárus H.Bjarnason: Batnandi manni er bezt að lifa.)

Það er kunnugt, að þessi maður hefir mörg ár þjáðst af illkynjuðum sjúkdómi

(L. H. Bjarnason: Napóleonssjúkdómi)

Þetta hefir komið fram á margvíslegan hátt og haft þau áhrif, að álit á honum er nú gersamlega þrotið. Eg átti áðan tal við merkan mann úr bæjarstjórninni, er sagði mér, að hann gerði þar ekkert annað en ógagn, spilti fyrir hverju máli. Þar væri engu því máli sigurvon, er hann fylgdi sem aðalmaður. Honum er þrotið alt fylgi. Taki menn eftir framkomu hans hér í dag. Hann hefir öðru hvoru verið að reka hér upp hlátur, en engan fengið til að hlæja með sér.

(L. H. Bjarnason: hlær.)

Enginn hlær nema hann. Þetta er sprottið af sorglegum sjúkdómi, sem heitir ofdramb, og hann lýsir sér með margvíslegum hætti. Hann hefir gengið með hann líklega svo tugum ára skiftir. Flokksmenn hans, vinir og venzlalið þola þrásinnis önn fyrir hann. Það er eins og mönnum sé ekki vel ljóst, að hér er um meðaumkunaratriði að ræða og annað ekki.

Eg geri ráð fyrir, að nefnd verði skipuð til að rannsaka þetta mál, og geymi mér því frekari andsvör gegn öllum þeim rangfærslum, blekkingum, ósannindum og villandi skýrslum er fram hafa komið í því.