27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Ólafur Briem:

Viðaukatillaga frá mér á þgskj. 740 fer fram á að veita fé til brúargerðar á Héraðsvötn í Skagafirði. Eins og kunnugt er, eru þau eitt hið mesta vatnsfall á landinu. Framan til í firðinum eru að vísu vöð á þeim, en þau eru ill og breyta sér iðulega, svo að þar sem vað er í einn tíma, er vaðleysa í hinn, auk þess sem þau eru straumhörð. Utan til eru þau nálega ófær vegna dýpis og sandbleytu. Til skamms tíma hafa þau verið ærið mannskæð og nálega árlega orðið einhverjum að fjörtjóni, en úr mannhættunni hefir þó dregið, síðan dragferjurnar komu, þótt ekki séu þær fullnægjandi. Dragferjur eru 2 og koma þær að góðu haldi þá tíma, sem hægt er að nota þær. En í leysingum á vorin og þegar byrjar að leggja á haustin verða þær ekki notaðar. Það er að eins á sumrum, sem þeim verður við komið.

Þetta mál er ekki nýtt. Samgöngumálanefndin á þinginu 1903 fjallaði um málið og komst að þeirri niðurstöðu, að þessi brú ætti að verða með hinum fyrstu. Á þingi 1905 var 3 manna nefnd í brúarmálum, og taldi hún þessa brú sjálfsagða næst á eftir Fnjóská og Rangá. Á því þingi var brúin samþykt með 21 shlj. atkv. í Nd., en dagaði uppi í Ed.

Það, að eg hefi ekki komið með sérstakt frumv. um brúna, stafar af fjárhagsástandi landsins. Eg veit, að ekki er hægt að leggja fram fé til hennar á þessu þingi. En úr því að brúannál eru tekin fyrir á þessu þingi, er sjálfsagt að þessi verði með, hvenær sem í þetta verður ráðist. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) hneykslaðist á breyttill. Mér þykja þær eðlilegar, því að þegar ein á er tekin, er rétt að raða niður, hverjar skuli koma næst og í hvaða röð. Það er ekki heldur óhugsanlegt, eins og fram kom í umræðum á þingi 1905, að ódýrara sé að hafa fleiri brýr undir í senn heldur en eina. Það gæti máske sparast fé við það.

Eg vona af framangreindum ástæðum, að málið fái góðar undirtektir.