27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Þegar eg sá þetta frumv. um brúargerð á Jökulsá, leyfði eg mér að koma fram með viðaukatill. við það. Eg get ekki viðurkent, að það sé nein óhæfa að sameina þetta í einu frumv., heldur finst mér það einmitt »praktiskt«. Það kemur seinna til þess, að ákveða það, hvernig verkið skuli verða framkvæmt, hvað skuli sitja fyrir og hvað á hakanum. Eg mun því ekki taka till. mína aftur, nema aðrir þm. taki sínar brtill. aftur. Annað mál væri, ef þeir gerðu það, þá mun þessi líka verða tekin aftur. Annars virðist mér þessi till. mín meinlaus, því að hér er að eins um heimild að ræða, sem ekki kemur til framkvæmda, fyr en þinginu þykir tími til.

Eg verð að geta þess, að hér er um þá á að ræða, sem er eitt af verstu bergvötnum þessa lands. Hún er alllöng og kemur úr einum hinum versta fjallgarði, Smjörvatnsheiði, og er oftast nær ófær alt vorið og það því lengur, af því að Smjörvatnsheiði er hár fjallgarður og bráðnar seint snjór úr henni. Hún er jafnvel oft ófær á sumrin og haustin, því að þar er mjög rigningasamt og margar ár, sem í hana renna. Einkum er það ilt á haustin, þegar fé kemur úr réttum, að Vopnfirðingar skuli vera neyddir til að sundleggja það í hana, og oft hefir það jafnvel komið fyrir, að fé hefir farist þar, þegar hún hefir verið í vexti.

Það má nú ef til vill segja, að hér standi sérstaklega á, af því að þetta er á sýsluvegi, en þingið hefir áður veitt þannig lagaðan styrk bæði í Þistilfirði og víðar. Hér er líka aukapóstleið og þeir þurfa að komast áfram, eins og aðrir, og umferðin er mikil, bæði milli héraða og til kaupstaðarins í Vopnafirði. Auðvitað er þetta sérstaklega gert fyrir Vopnfirðinga, en Vopnafjörður er líka eitt af blómlegustu héruðum þessa lands og hefir ekki fengið eins eyris styrk úr landssjóði nú, svo eg viti til. Þetta er því fyrsta bón, og upphæðin ekki svo gífurlega há, 24000,00 (tuttugu og fjögur þús. kr.). Býst eg því við, að deildin taki þessu vel, og finst mér engin ástæða til að taka neina af þessum fjárbeiðslum sérstaklega út úr, því að sjálfsagt væri að verða við þeim öllum, ef landið hefði kraft til þess. Það getur verið, að það væri rétt að samþykkja þessa rökstuddu dagskrá, sem fram er komin, því að það gerir hvorki til né frá, hvort hún er samþykt eða frumvarpið; alt veltur á hentugleikunum, sem eru á því að koma þessu í framkvæmd.