21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

109. mál, útflutningsgjald

Framsögum. (Ólafur Briem):

Þó þetta frumvarp sé stutt, þá álítur nefndin, að í því felist talsverð réttarbót. Það er ekki breyting frá eldri lögum, heldur til að tryggja tilgang eldri laga. Tilgangurinn er óefað sá, með því að verja 10% síldartollinum til verðlauna, að styðja útgerð innlendra manna, en styrkurinn hefir að nokkru leyti komið niður á rangan stað, því útlendir menn, sem ekki hafa veitt sjálfir hafa keypt síldina og flutt hana út og svo fengið styrkinn. Tilgangurinn með þessum lögum er sá, að fá trygging fyrir því, að styrknum verði eftirleiðis úthlutað til útgerða skipa þeirra, sem veiða síldina, og ennfremur að hlutdeild í styrknum fái ekki önnur skip en þau, sem hvergi stunda veiði annarsstaðar en hér við land. Og með því að þetta á að miða að því að efla síldarútveg innlendra manna, er það eindregin tillaga nefndarinnar, að frumvarpið verði samþykt.