28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

86. mál, sjúkrasamlög

igurður Sigurðsson:

Við höfum leyft okkur, eg og háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.), að koma fram með brtill. á þgskj. 760 við þetta frumv. Það, sem aðallega vakti fyrir okkur, var það, að hér gæti orðið um allveruleg útgjöld að ræða fyrir landssjóð, þegar sjúkrasamlögunum fjölgaði. Hins vegar litum við svo á, að erfitt mundi verða síðar að fá tillagið frá landssjóð lækkað, þótt reynslan kynni að sýna, að samlögin bæru sig vel og þyrftu ekki svo háan styrk. Vitanlega er erfitt að dæma um það á þessu stigi málsins, hve greiðlega það muni ganga að fá menn inn í samlögin, en undir því er styrkur þeirra kominn, að sem flestir gerist félagar þeirra. En með jafnháum styrk úr landssjóði og ráðgerður er í frumv. virðist ástæða til að ætla, að menn keppi eptir að ganga í þessi sjúkrasamlög og að þeim fjölgi brátt svo, að hér verði um allverulegan skatt að ræða fyrir landssjóðinn. En flytjendur málsins, bæði innan þings og utan, og þar á meðal háttv. þm. Vestm. (J. M.) fullyrða, að hér þurfi ekki að óttast slíkt. Fyrst um sinn geti ekki orðið hér um tilfinnanleg útgjöld að ræða fyrir landssjóð. Hins vegar álíta þeir, að ef þessar brtill. verði samþyktar, þá hljóti það að hnekkja mjög viðgangi sjúkrasamlaganna, og væri það miður vel farið.

Um brtill. er það að segja að öðru leyti, að um leið og farið er fram á að lækka styrkinn úr landssjóði, þá er aftur á móti gerð tilraun til að rýmka önnur skilyrði í frumvarpinu. Árstekna skilyrðið er fært upp úr 1200 kr. í 1500 kr., og dagpeningagreiðslan færð úr ? ofan í ½ af venjulegum dagtekjum sjúklingsins. Hér er því að ræða um eins konar tilfærslu á tekjum og gjöldum samlaganna, og er ætlast til með því, að jafnvægið í því efni haldist nokkurn veginn óbreytt, þegar öllu er á botninn hvolft.

Annars vil eg geta þess, að tilgangur okkar með þessum brtill. er alls ekki sá, að spilla fyrir framgangi þessa máls eða á nokkurn hátt hindra það, að sjúkrasamlög geti komist á fót og þrifist. Síður en svo. Og þar sem aðalflytjendur og styðjendur frv. hafa látið það ótvírætt í ljósi, að þessar brtill. geti orðið þess valdandi, að málinu verði stefnt í ófæru og framgangi þess spilt, þá viljum við ekki halda þeim fram til streitu.