01.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

63. mál, Húsavík með Þorvaldsstöðum

Hálfdan Guðjónsson:

Seinast þegar mál þetta lá hér fyrir deildinni, þá tók eg það fram, að óheppilegt væri, þegar um sölu á landssjóðsjörðum eða fasteignum prestlaunasjóðs væri að ræða, að salan færi svo fram, að kúgildi þau, sem jörðunum fylgdu, væru undanskilin kaupunum, það væri mjög óheppilegt, að greina í sundur sjálfa jarðeignina og kúgildin og það gæti leitt til þess, að kúgildin yrðu hin mesta hermdargjöf, eða að minsta kosti völt eign og óarðvænleg fyrir eigandann þ. e. landssjóð, að halda þeim eftir, þegar fasteignin væri seld frá þeim. Það hefir verið venja, þegar fasteign hefir verið metin, að jarðeignin ein væri ekki lögð í höfuðstól, heldur líka sú upphæð, er svaraði sem höfuðstóll til kúgildaleigunnar, þannig að jarðaverðið hefir verið metið bæði eftir landskuld og kúgildaleigum. Í þessu tilfelli yrði þetta nokkuð öðruvísi en vanalega, því að hér er um kaupstaðar- og byggingarlóð að ræða, svo að ef til vill munaði það ekki tiltölulega jafnmiklu og vant er á verðinu, þó að kúgildi væru undanskilin kaupunum. En það er reglan, sem ekki á að takast upp, þó skaðlaust væri í þessu tilfelli. Það gæti orðið vont fordæmi síðar meir, enda fór atkvæðagreiðsla svo við síðustu umr. hér í deildinni, að kúgildin skyldu fylgja með í kaupunum. Það hefir því vakað fyrir mér, að jarðarverðinu yrði breytt við þessa umræðu, því að það getur ekki hafa verið meiningin, að sletta kúgildunum ofan á borgunarlaust. Eg hefi þessvegna leyft mér að koma fram með breyt.till. á þgskj. 825, sem felur það í sér, að kúgildin fylgi með í kaupunum og jarðarverðið hækki sem því svari. Eg hefi þó farið nokkuð lægra en verðlagsskráin, og reiknað kúgildiseftirgjaldið 80 kr. Til þess mundi svara 2000 kr. verðhækkun, því að 80 kr. eru rentur, sem svarar til þess höfuðstóls. En nú hefir framkomið viðaukatill., sem fer fram á það, að verðið hækki að eins um 600 kr. Þó að eg vildi nú gera miðlun og fara dálítið lægra, þá finst mér samt, að þetta geti ekki náð nokkurri átt, að meta 36 ær til vaxta að eins á móti 600 kr. Þessvegna verð eg að mæla á móti þessari till., en ef farið hefði verið nokkru hærra, t. d. 1500 kr., þá hefði eg ef til vill, til þess að hindra ekki framgang málsins, getað gengið að því, en svona mikilli lækkun get eg ekki greitt atkvæði.

Að svo stöddu skal eg ekki fara fleiri orðum um málið, fyr en eg heyri einhverjum mótmælum hreyft.