13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Það er þannig sannað með orðum landritara, skrifstofustj. og jafnvel með játningu ráðh. sjálfs, og bankarannsóknarn.mannanna, að engar aðrar kærur höfðu borist ráðherra fyrir afsetninguna, en þær sem áður getur. Ráðherra farast svo orð í bréfi til nefndarinnar 3. marz:

„Við fyrri spurningunni (o: spurningu um, hvort bankastjórnin hefði verið kærð undan rannsóknarnefndarskipuninni, eða afsetningunni) liggur það svar, að eftir bankalögunum þarf enga kæru til að láta rannsaka allan hag bankans, hvenær sem er. . .

En rétt á undan afsetningunni 22. nóv. hafði rannsóknarnefndin skýrt ráðherra frá þeim hinum rniklu ávirðingum, sem bankastjórnin hafði gert sig seka í. . .“

Ráðherra hafði þannig ekkert annað fyrir sig að bera, afsetningunni til stuðnings, en kærur nefndarinnar út af gjörðabókarleysinu og víxlakaupum starfsmanna. Þær einar kærur hafði nefndin borið skjallega fram, en á munnlegu hjali nefndarmanna gat jafnvel núverandi ráðherra ekki bygt afsetninguna, enda hafði nefndin þá ekki hálfkannað aðalkálfinn sinn, tapið. Matið á því var þá ekki orðið til. Út í það skal þó ekki farið hér, enda átti Nd. að rannsaka það. Afsetningin var þannig að efni til öldungis óforsvararleg.

En þó að ráðh. hefði þannig enga efnisástæðu til að setja bankastjórnina af, þá hafði hann þó, að forminu til eða í orði kveðnu, heimild til þess, samkvæmt 20. grein bankalaganna frá 1885, að víkja gæzlustjórunum frá, en einungis um stundarsakir. En sú formlega heimild féll niður 1. janúar 1910, er hin nýju bankalög frá 9. júlí 1909 gengu í gildi. Því að með 8. grein nýnefndra laga er sá kafli bankalaganna frá 85, er 20. greinin er í, IV. kaflinn, beint numinn úr gildi. Þar að auki sést það berlega af 1. grein laganna, að ráðherra er ekki ætlað vald til að setja gæzlustjórana frá, jafnvel ekki um stundarsakir. Honum er þar fengið vald til að „víkja bankastjórunum frá um stundarsakir, öðrum eða báðum“, en honum er ekki fengið þar samskonar vald yfir gæzlustjórunum, þó að þeirra sé minst í greininni. Gæzlustjórarnir áttu því lögum samkvæmt að taka við sætum sínum aftur, 1. janúar 1910, en ráðherra meinaði þeim það. Og það brot ráðh. getur engin hinna 3 varnarástæðna hv. þm. Akureyrarkaupstaðar réttlætt. Það er fyrst og fremst ekki rétt, að deildin þurfi að bíða dóms hæstaréttar. Hæstiréttur er ekki bær um að dæma um það, hvort ráðherra hefir farið með embættisvald sitt svo að vítavert sé. Landsdómurinn einn er bær að dæma um það. Og því síður getur hæstiréttur dæmt um það, hvort gæzlustjórarnir njóta trausts deilda sinna, eða ekki. Hæstiréttur getur í hæsta lagi dæmt um það, hvort rétt hafi verið, að fógeti setti gæzlustjóra Ed. inn, og gæti hugsast, að hann komist að þeirri niðurstöðu, að það hafi ekki verið rétt. En það snertir ekki réttmæti afsetningarinnar.

Annars er það eftirtektarvert, að heyra jafnmikla „sjálfstæðisgarpa“ og hæstv. ráðh. og hv. þm. Ak. ákalla hástöfum dómsvald hæstaréttar, í máli, sem honum kemur ekkert við.

Þá getur það að sjálfsögðu ekki sýknað hæstv. ráðh., að hv. þm. telur það sennilegt, að stjórn Landmandsbankans hefði „tekið tillögur þeirra (um að slíta viðskiftum við Landsbankann) að öllu leyti til greina“, né heldur spá hans um að yfirlýsing þeirra „hafi ekki verið eina ástæðan“ til að ráðherra meinaði gæzlustjórunum sæti þeirra. Hæstv. ráðherra forsómaði að bera spádóm dönsku bankamannanna undir stjórn Landmandsbankans, eins og hann hefði átt að gjöra, ef hann hefði lagt nokkuð upp úr henni. Og spádómur þm. um, að ráðherra hafi haft fleiri ástæður fyrir sér, er ekkert annað en fyrirsláttur, eða því bendir hann ekki á þær ástæður? — Blátt áfram af því að hann getur það ekki, þær eru ekki til. Þá hefir hv. þm. í 3. lagi haldið fram ráðherra til forsvars að Landsbankinn hefði ekki getað leyst sig undan skuldinni við Landmandsbankann. En það er líka rangt. Landsbankinn skuldaði Landmandsbankanum um áramótin 1909 — '10 alls kr. 803,751,53

Auk þess átti bankinn um

það leyti að svara fyrir útdregin bankavaxtabréf . — 135,646,52

eða alls — 939,398,05

Af þessari upphæð borgaði Landsb. Landmands-

banken 2/1 '10 .... — 487,500,00

og voru þá alls eftir . . — 451,898,05

Upp í þetta átti bankinn

útlend verðbréf, er selja mátti samstundis á

kauphöllinni — 202,617,50

og hefðu þá staðið eftir . — 249,280,55

en þá upphæð hefði bankanum verið innan handar að útvega sér. Hann átti þá 587,000 kr. í bankavaxtabréfum, og landssjóður hefði hæglega getað keypt þau af bankanum, eða að minsta kosti svo mikið sem bankinn hefði þurft að selja af þeim, um 250.000 kr. Landssjóður átti um þetta leyti í bönkunum hér 756,000 kr. Hv. þm. segir raunar að landssjóður hefði að eins mátt kaupa 3. flokks bréf af bankanum, en það er rangt, eins og lög nr. 14, 9. VII. 1909 sjálf bera með sér; þau heimila landsstjórninni að kaupa ótiltekið: „bankavaxtabréf fyrir alt að 2 milj. króna“, enda kom það skýrt fram í ræðu framsögum. laganna 1909, að kaupin ættu ekki að vera bundin við 3. flokk. Hann segir berum orðum að kaupheimildin eigi að ná til fyrri flokka, Alþt 1909 B, bls. 801. Það er líka rangt að bankarnir mundu ekki hafa getað svarað út innstæðu landssjóðs vegna lítils peningaforða. Þeir hefðu orðið að gjöra það, enda innan handar að borga með ávísun, ef heimaféð hefði ekki hrokkið til.

Bankinn hefði þannig getað borgað Landmandsbankanum skuld sína að fullu, þótt upp hefði verið sagt láninu. En nú var ekki því að heilsa, svo langt frá því, að það var aldrei orðað. Og þó að Landmb. hefði sagt upp og bankinn komist í kreppu fyrir, þá hefði ráðherra samt ekki mátt brjóta skýlaus lög til að firra bankann stundarbaga.

Þá er eftir „leyndardómurinn“, sem Ísafold og ráðherra o. fl. hafa sagt því til fyrirstöðu, að gæzlustjórarnir fengju að taka við sætum sínum, og mun þar vera átt við hina skriflegu skýrslu dönsku bankamannanna um skoðunina, sem ráðherra fékk að láni, hjá Landmandsbanken, og þeim ráðh. og Landmb. kemur saman um að ekki megi birta opinberlega. En út af þeim leyndardómi dettur mér í hug sagan af hinu alræmda franska féglæframáli, sem kent er við hjónin Humbert. Frú Humbert sagði amerískan auðmann hafa arfleitt sig að 100 milj. kr., en nokkru seinna risu upp 2 „bróðursynir“ auðmannsins og heimtuðu til sín ? arfsins. Þeir héldu kröfu sinni til dóms og hafði orðið að sátt, að loka skyldi auðinn inni í járnpeningaskáp og forsigla, þangað til dómur gengi. Málið stóð yfir í 19 ár, og öll þau ár lifðu Humberthjónin hátt á lánum upp á forsiglaða auðinn. En loks fór menn að gruna ýmislegt, hjónin struku, og þá var skápurinn opnaður og sjá, í honum var ekkert annað en ónýtt rusl. Líkt er ástatt um skýrslu bankamannanna, sem 10 alþingismenn hafa fengið að heyra. Í henni er ekkert, sem máli skifti fyrir bankafarganið. Hinsvegar er í henni hitt og þetta rusl, meðal annars þannig löguð lýsing á efnahag 3 stærstu verlunarhúsanna hér, sem gjörir það ofboð skiljanlegt, að Landmandsbanken hefir ekki kært sig um að hlutaðeigendur fengju að sjá hana. Í „leyndardóminn“ er því ekki til neins að vitna, og sízt situr það á Ísafold, sem sagði um Humbertmálið: „Það má segja að hér hafi saman átt heimska og auðtrygni á aðra hlið, en ódæma þorparamenska á hina,“ Ísaf. nr. 44, XXIX. árg.

Og úr því að eg er komin út í samanburð á annað borð, get eg ekki varist þess, er eg hugsa til ráðherradóms hæstv. ráðherra, að minnast Jeppa heitins frá Fjalli. Ráðherra hafði líka átt bágt með að átta sig á hinu nýja herrastandi, hafði meðal annars lengi kveinkað sér við að fara á konungsfund. En eftir að hann hafði látið telja sér trú um herradóminn, ætlaði einnig hann alt að brjóta og bramla, sá helzti munurinn að Jeppi heitinn lét reiði sína helzt bitna á ráðsmanni sínum en ráðh. á bankastjórunum. Og mundi nú ekki hæstv. ráðh. enda í líkri sæng og danski Jeppi, á haugnum ?

Hv. þm. Ak. segir að: „Deildin (hafi) fult vald til að fylla í skarðið“. Það skarðið, sem hæstv. ráðh. hjó ólöglega og að ástæðulausu í stjórn Landsbankans. Og það er orð að sönnu, látum oss nú gjöra það umsvifalaust. En áður en tillaga vor meirihlutamanna verður borin undir atkv., leyfi eg mér að leiða athygli að því, að hún er í 3 liðum og tel eg rétt að hún sé því borin upp í þrennu lagi, hver liður fyrir sig.

Loks vona eg að mótflokkurinn þýðist nú ráð mín betur en á síðasta alþingi, er eg réð honum að samþykkja ekki traustsyfirlýsingu þá, er hv. þm. Ak. bar fram ráðherra til handa út af rannsóknarnefndarskipuninni. Ráðherra þoldi ekki að riðið væri þannig undir hann, og því er nú komið sem komið er, að hinn mikli flokkur er að miklu leyti sundraður, enda mun flokkurinn nú sjá eftir öllu saman og ekki sízt ráðherra. Flokkurinn brennir sig nú vonandi ekki á sama soðinu, enda alt annað en hyggilegt að fylkja sér fast utan um annan eins mann og hæstv. ráðh.