29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

127. mál, sala á Sigurðarstöðum

Jón Magnússon:

Það hefir komið til tals að selja þrjár jarðir þarna, hvora rétt í grend við aðra, nefnilega Ærlækjarsel, Presthóla og Sigurðarstaði. Fyrst þegar átti að selja Ærlækjarsel, þá mátti það ekki fyrir sveitarstjórninni, því það þurfti að vera skólajörð. Svo þegar ábúandinn vildi kaupa Presthóla, þá þurfti að hafa skóla þar, og loks þegar ábúandinn á Sigurðarstöðum vildi kaupa þá jörð, þá var það einmitt hún, sem var orðin allra nauðsynlegust til þess að hafa fyrir skólajörð. Eg skal nú sem fæst um það segja, hvort líklegt sé, að þar í sveit verði settur upp heimavistarskóli. Eg veit, að þarna býr myndarfólk og vel fært um að halda uppi skóla, en litla trú hefi eg samt á því, að úr því verði fyrst um sinn. Þetta eru fámennar sóknir; í Presthólasókn munu vera eitthvað 10 börn á skólaaldri, í Ásmundarstaðasókn — svo að alt prestakallið sé tekið með — munu þau vera nokkuð fleiri.

Það sem ræður samt mestu um atkvæði mitt um tillögur nefndarinnar, sem eg verð algerlega að vera á móti, er réttur ábúanda, og getur hvorki alþingi né stjórnarráð selt jörðina öðrum en ábúanda, nema hann vilji ekki nota forkaupsrétt sinn eða geti ekki. Veit eg ekki til, að þessu sé öðru vísi háttað um jarðir, sem eru almannaeign, heldur en um einstakra manna eignir.

Sveitarfélaginu ætti að vera það nóg, að jörðin verður ekki seld, og getur þá landsstjórnin alt af tekið til greina þörf sveitarinnar, að óskertum rétti ábúanda.