29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

127. mál, sala á Sigurðarstöðum

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Eg býst við að þetta, sem h. þm. Vestm. (J. M.) sagði um þessar mörgu skólajarðir í Presthólahreppi, sé sprottið af ókunnugleika, þar sem hann er að setja aðrar sveitir í samband við þetta mál, til þess að gera það sem tortryggilegast. Presthólar koma auðvitað ekki til greina sem skólajörð, ef skóli verður settr á Sigurðarstöðum, enda hefir þingnefndin mælt með sölu þeirra til ábúanda, svo óþarft var að blanda þeim í þetta mál. Eg veit ekki, hvort Skinnastaðahreppur hefir viljað fá Ærlækjarsel eða Ærlæk fyrir skólajörð, — læt ósagt um það — enda kemur það ekkert því máli við, hvaða jörð Ásmundarstaðahreppur vill fá fyrir skólajörð handa sér og er talað út í hött.

Háttv. þingmaður sagði, að ekki væri nema 10 börn á skólaaldri í Presthólasókn, en þótt það kynni að vera rétt, þá sannar það ekkert um það, að skólasetur sé óþarft, því að skólinn á jafnframt að vera fyrir Ásmundarstaðasókn og játaði þingmaðurinn, að hann vissi ekki um barnafjölda þar. — Mér hefir heyrst sumir bera brigð á, að Sigurðarstaðir væri vel sett skólajörð fyrir báðar sóknirnar, en til þess að taka af öll tvímæli skal eg strax geta þess, að þessi jörð liggur einmitt á miðri Sléttu nærri sóknamótum, svo að jafn hægt er fyrir báðar sóknirnar að sækja þangað og nota skólann. Um heimangönguskóla getur auðvitað ekki verið að ræða í svo víðlendum og strjálbygðum sveitum.

Háttv. þm. vildi gera lítið úr því, að búendur Presthólahrepps mundu vilja setja á stofn skóla að sinni. Um það getur hann ekkert vitað og engu spáð, og úr því að þeir óska þess einum rómi, að fá jörðina keypta til þess að setja þar skóla, þá ætti að vera meira mark á því takandi heldur en bláberum getgátum bráðókunnugra manna hér.

Fullyrðingarnar um það, að þingið sé að skerða rétt leiguliða, ef það samþykki frumvarpið, ná engri átt. Kaupréttur leiguliða er einmitt þannig takmarkaður með lögum, að hann kemur ekki til greina, ef hann ríður í bága við þarfir almennings, eins og hér á sér stað, úr því að þessi jörð álízt hentug fyrir skólajörð. Mér sýnist málið liggja ofurljóst fyrir, en þó hefir stjórnarvöldunum verið ógreitt um úrskurðina, sem kemur víst mest af því, að allfast hefir verið sótt málið af hálfu kaupaðila. Eins og nú stendur verður því ekki komist hjá því að þingið taki í strenginn og leiði málið til lykta til þess að afstýra frekari þrætum og láta sveitarfélagið ná rétti sínum.

Eg vil benda á það, að hér liggur fyrir deildinni annað mál áþekt þessu, sala Húsavíkur; þar er að vísu dálítið öðru máli að gegna, en eg sé þó ekki neitt frekara á móti því að selja þessa jörð en hana, og eg ímynda mér að háttv. deild játi, að jafnvel þótt ekki beri að hagga ósanngjarnlega rétti einstakra manna, þá verði þó öllu fremur að líta á hag sveitarfélagsins.