29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

127. mál, sala á Sigurðarstöðum

Hannes Hafstein:

Þegar um það er að ræða, að alþingi veiti með sérstökum lögum heimild til að selja þjóðjarðir, sem stjórnarráðið getur ekki selt, af því að það kemur í bága við ákvæði þjóðjarðasölulaganna, þá virðist mér verða að gera greinarmun á því, hverjir þeir meinbugir eru, sem sölunni eru til fyrirstöðu. Sé salan óheimil vegna þess, að hún er talin koma í bága við hagsmuni þess opinbera, þá er rétt að alþingi dæmi um ástæður — en sé um réttindi privatmanna að ræða, er alt öðru máli að gegna. Þar hefir alþingi ekki rétt að dæma, heldur verður þar að fara eftir þeim lögum, sem gilda um þetta efni. Með lögunum um forkaupsrétt leiguliða, hafa ábúendur þjóðjarða öðlast rétt, sem ekki verður frá þeim tekinn endurgjaldslaust, samkvæmt almennri grundvallarreglu laga, sem jafnan hefir verið fylgt, einnig hér á þingi. Eg sé ekki neina knýjandi ástæðu til þess að gera nú undantekning frá þeim lögum.

Eg verð því eindregið á móti því, að hreppnum sé seld umrædd jörð, nema ábúandi afsali sér forkaupsrétti.