01.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

127. mál, sala á Sigurðarstöðum

Jón Magnússon:

Það varð talsverð deila um þetta mál við 2. umr. Sérstaklega var þá gert lítið úr áliti og skilningi þeirra lögfræðinga, sem þá töluðu. Maður þarf nú ekki að kippa sér upp við það, það er svipað og umtalið um skottulækna og lærða lækna. Lögfræðingarnir eiga að missa alment mannvit við það, að leggja fyrir sig laganám. Og annars lítur helzt svo út, að sumir menn ætli, að það sé eina ráðið til að halda fullri greind, að læra ekkert, eða að minsta kosti leggja ekki fyrir sig praktisk fræði. Eg skal annars ekki fara að deila um það atriði, en vildi að eins benda hv. deild á líkt mál og þetta, sem lá hér fyrir þinginu í hitt eð fyrra. Það var frumv. til laga um sölu á jörðinni Kjarna. Þá var heimildin á sölu jarðarinnar til Akureyrarbæjar einmitt með tilliti til laganna um forkaupsrétt leiguliða bygð á því, að ábúandinn á Kjarna hafði afsalað sér forkaupsrétti sínum. Það er nú kannske ekkert undarlegt, þó að menn greiði atkvæði nú á móti því, sem þeir bygðu á þá — þingið er svo skipað, að maður kippir sér ekki upp við slíkt. Eg hefi í þessu efni leitað upplýsinga hjá lögfræðingi, sem mjög mikið hefir átt við lík mál og þetta, og hann var mér alveg samdóma um það, að alþingi hefði ekki leyfi til þess að selja Sigurðarstaði öðrum en ábúanda og traðka rétti leiguliða, nema eiga á hættu að verða að borga leiguliða skaðabætur. Eg get ekki sagt það með fullri vissu, en mér þykir sennilegast, að dómstólarnir mundu dæma ábúandanum skaðabætur, ef jörðin væri seld öðrum en honum; þess vegna vildi eg gera mitt til þess að mæla á móti því, að alþingi eigi hér nokkuð á hættu. Það getur í rauninni ekki verið neitt kappsmál fyrir sveitarfélagið; jörðin verður ekki seld öðrum, eins og nú stendur, og ef hreppurinn þarf á henni að halda fyrir skóla, þá er hún til boða þar til auðvitað, ef ábúendaréttur er ekki til hindrunar.