13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Forseti:

Eg vil leyfa mér að geta þess, að hér hefir komið fram skjal, er fer fram á að fresta fundi, og er svo hljóðandi:

Undirritaðir þingmenn efri deildar óska fundi deildarinnar kl. 5 í dag frestað.

Alþingi 13/3 —'11

Sigurður Stefánsson, Jósef Björnsson, Sigurður Hjörleifsson, Ari Jónsson.

Mér þykir rétt, að af þeirra hálfu, sem um þetta hafa beðið, komi fram ástæðan fyrir beiðninni.

(L. H. B.: Hver er ástæðan?)

Mér skildist af ummælum, er eg heyrði falla meðal þingmanna, er staddir voru í neðri deildar salnum, þegar eg gekk nú hingað inn, að ástæðan sé ný tíðindi, sem vel má kalla stórtíðindi, sem þingmenn finni ástæðu til að tala saman um á prívat fundi. Tíðindin voru mér sögð þau, að búið sé að tilnefna ráðherra; heyrðist mér ýmsum þingmönnum koma sú útnefning á óvart og finnast með henni gengið nærri þingræðinu (parlamentarismus) og sérstaklega vilja meiri hluta þjóðkjörinna þingmanna. Eg leyfi mér nú að bera undir atkvæði tillögu þessa.