19.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

84. mál, færsla þingtímans

Sigurður Sigurðsson:

Mér kemur mjög á óvart þetta frumv. stjórnarinnar, sem nú er til umræðu. Satt að segja hefi eg eigi orðið var við óánægju með þingtímann, sem nú er lögákveðinn. Eg minnist þess, að á síðasta þingi heyrði eg að eins einn þingmann kvarta yfir vetrarþingi, en að öðru leyti er mér ókunnugt um, að menn séu óánægðir með fyrirkomulagið sem er. Mér er einnig óskiljanlegt, að bændur skuli telja annan tíma hentugri fyrir sig til þingsetu, og furðaði mig því á ummælum háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) í þessu efni, slíkur búhöldur sem hann er.

Heyskapartíminn er jafnan kallaður aðalbjargræðistími bændanna. Og svo er það einnig í raun og veru. Aðrir tímar ársins geta einnig heitið svo, ef þeir eru réttilega notaðir, en slátturinn er þó og verður jafnan hvað þýðingarmestur, þegar á alt er litið. — Þeir sem kannast við það, að sjálfs er höndin hollust, verða að viðurkenna með mér, að þá megi bændurnir sízt vera að heiman. Sumartíminn er því, að minni hyggju einkar óhentugur til þingsetu, þegar ræða er um sveitabændur alment.

Háttv. þm. hafa fært það sem ástæðu á móti vetrarþingum, að þá sé erfitt að ferðast. Það getur vitanlega komið fyrir. En hversu oft ber það ekki við, að menn sitja teptir, jafnvel í maí, bæði á landi, vegna veðurs og vatna, og eins í sjóferðum vegna hafíssins.

Minna má á það í þessu sambandi, að póstar fara vanalega allra ferða sinna að vetrinum. Það getur vitanlega komið fyrir, að þingmenn tefjist á leiðinni til þings. En hingað til hafa þeir ekki sett sér svo takmarkaðan ferðatíma, þegar miðað er við ferðareikninga þeirra, að vert sé að gera mikið úr þessu. Áætlun skipanna, sem eiga að taka þingmennina, er oft óhaganleg, og svo ber það einnig við, að þau fara inn á hafnir, sem ekki eru á áætlun og seinkar það ferðinni. En þetta og annað þessu svipað, getur ekki talist ástæða á móti vetrarþingum. Þeir sem ekki treysta sér til þingferða að vetrinum, ættu ekki að vera að hugsa um þingmensku. En annars er eg þess viss, að það mundi fæla marga bændur frá því að gefa kost á sér til þingsetu, ef þingtíminn er færður og því er eg alfarið mótfallinn þessu frumv.

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) sagði, að kennarar landsins væru útilokaðir frá þingsetu með því að hafa þing að vetrinum. Í sjálfu sér hefi eg ekkert á móti því, að kennarar eigi sæti á alþingi, enda eru nokkrir þeirra á þingi, eins og nú stendur. En þótt kennarar séu góðir menn, þá er ekki ástæða til að miða þingtímann við þá. Hér er einnig á það að líta, að ef þingtíminn er færður fram í maí, þá eiga bæði prestar og sýslumenn óhægt með að sitja á þingi. En annars held eg því ekki fram, að þingtíminn eigi að miðast við embættismennina eða hentugleika þeirra. Slíkt nær ekki neinni átt. Það ætti þvert á móti að takmarka, að embættismenn gætu verið þingmenn. Það gæti t. d. komið til greina, að banna öllum dómendum æðri og lægri, þingsetu, þar á meðal sýslumönnum.

Fyrir því vil eg ekki, að þingtímina sé færður fram á vorið eða sumarið, því það mundi hafa þær afleiðingar, að embættismenn, búsettir í Reykjavík, ættu þá hægra með að gegna þingstörfum. Hins vegar er bændum með því gert erfiðara fyrir að geta sint þingmensku, og á það legg eg mikla áherzlu.