17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

84. mál, færsla þingtímans

Pétur Jónsson:

Hinn lögákveðni þingtími mun hafa verið settur, eins og nú er, einkum vegna bændastéttarinnar, og er þá rétt, ef honum er breytt, að við bændur hér á þingi látum í ljósi, hver tími oss er hagfeldur; því það er óneitanlega rétt, að taka mikið tillit til þeirrar stéttarinnar, sem er fjölmennust. Það er mikið álitamál, hvort bóndanum er heppilegra að vera að heiman um vetrartímann en sumartímann. Ef þingið stendur einungis 2 mánuði er naumast skaðaminni tími fyrir bóndann, en sumartíminn, sá er lengst af hefir verið. En ef tíminn lengist, svo að annaðhvort takist af vori eða hausti, þá getur það verið óbærilegt fyrir bóndann. Eg hefi talsverða reynslu í því, að vera að heiman frá búi mínu, og það er segin saga að vorið og haustið finst mér lang bagalegast að missa frá búi mínu, einkum vorið, þegar fóðurskortur getur vofað yfir, hjúaskifti eru og voryrkjur byrja. Sé þingtíminn t. d. 10 vikur eða lengri er án efa heppilegast fyrir bændur, að þingið byrji í nóvember eða desember, svo að þeir séu heim komnir af þingi snemma í apríl eða fyr.