17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

84. mál, færsla þingtímans

Þorleifur Jónsson:

Eg hafði ekki búist við því, að þetta frumvarp myndi mæta eins mikilli mótspyrnu, eins og komið hefir fram frá 2 háttv. deildarmönnum. Þeir segja, að breyting á þingtímanum sé með öllu óþörf, með því, að þessi þingtími, sem nú er, sé hentugur, og allur landslýður mjög ánægður með þann tíma. En eg held mér sé óhætt að fullyrða, að þeir séu mjög ókunnugir skoðunum landsmanna í þessu máli, ef þeir álíta, að landslýður sé mjög ánægður með vetrarþingin.

Eg held að óhætt sé að segja, að strax 1907, þegar þingtíminn var færður til 15. febr., hafi óhug slegið á marga menn. Alþing hafði alla leið framan úr fornöld verið háð að sumarlagi, og aldrei komið verulegar kvartanir yfir því, að sá tími væri óhentugur, og fyrst í stað gátu menn víst ekki alment skilið, hver bót væri að breyta þar eldgamalli venju.

Nú hafa menn fengið reynsluna í þessu máli og hún er sú, að vetrarþingin eru að öllu leyti mjög óheppileg, og eg veit fyrir víst, að menn víða um land eru mjög óánægðir með þau.

Aðalástæðan fyrir því, að færa þing til vetrarins, átti að vera sú, að bændur ættu mikið hægara með að sitja á þingi þá, heldur en um sumartímann, og enn heyrist mér það aðalástæðan hjá þeim háttv. þingmönnum, sem risið hafa á móti þessu frumvarpi. Þeir þykjast enn bera þar hag bændanna fyrir brjósti, þeir þykjast vita betur en bændur sjálfir, hvað þeim er fyrir beztu. En sannleikurinn er sá, eftir minni skoðun, að seinni partur vetrar og fram á vor, er sá tími, sem er langhættulegastur fyrir bændur að yfirgefa bú sín. Þá þarf hina nákvæmustu umsjón á heyjum og búpeningi, því að eftir því, hve nákvæm hirðing er þá á skepnum og hve vel heyjum er hagtært, fer að mestu leyti afkoma bóndans á vorin, og er því í raun og veru erfiðara að fá mann til eftirlits um það leyti, sem getur sett sig inn í alt ásigkomulag, viðvíkjandi beit og fóðrun og allri meðferð fénaðarins, heldur en að fá mann til að stjórna heyverkum, því að þar kemur lítið til greina mismunandi ásigkomulag jarða.

Menn halda því líka fram, að ódýrara sé fyrir bændur að fá vetrarmann, en mann um sumartímann. En af því að umsjónarmenn á vetrum eru vandfengnari, þá er hætt við að kaup þeirra verði líka nokkuð hátt.

Bændur verða líka að fá manninn nokkuð löngu fyrir þingtímann, til þess að hann geti fengið glögga hugmynd um, hvað gera skal, meðan húsbóndinn er að heiman. En til heyskaparverka þekkja flestir og verða því ekki vandræði úr að fá góðan mann til að segja fyrir þeim verkum.

Þá mælir það móti vetrarþingum meðal annars, að ferðalög eru mjög erfið þá og getur vel farið svo, að þingmenn komist ekki í tæka tíð. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) var að minnast á póstana, að þeir kæmust þó altaf ferða sinna, og ekki væri meiri vandræði fyrir þingmenn að komast áfram en þá. Þetta gæti verið mikið rétt hjá honum, ef þingmenn væru valdir með því einu fyrir augum, að þeir væru röskir og duglegir til landferða, en með því yrði ef til vill mörgum aldurhnignum og heilsulinum mönnum, sem þó geta verið nýtir menn, meinuð þingseta.

Auk þessa má geta þess, að vetrarferðir á landi verða svo miklu dýrari, en ferðir á sumrin, því þá geta allir notað gufuskipaferðir.

Líka má geta þess, að vetrartíminn er víða því nær ómögulegur til þingmálafundarhalda. En allir vita, hve nauðsynleg er samvinna þingmannsins og kjósendanna, og eins hitt, að kjósendum sé gefinn kostur á að láta álit sitt í ljósi á hinum ýmsu þjóðmálum, áður en þing kemur saman. En með vetrarþingum er þeim nær varnað þess.

Óánægja er og manna á meðal út af því, að á vetrum geta sveitamenn miklu síður komist til Reykjavíkur. En á sumrum skreppa menn hingað með strandferðabátunum og myndu þá hafa ánægju af að sjá og heyra þingið í 2—3 daga, þótt ekki sé lengur. En eins og nú er, fá menn engar fregnir af þingi vikum eða mánuðum saman og geta því miklu síður fylgst með gerðum þess. Nú er þingið að eins fyrir Reykjavík, en sveitamenn verða að þessu leyti útundan. Á vetrum verða og miklar tafir af helgunum, páskavikan t. d. fellur úr. Ennfremur verður þingmönnunum þingsetan miklu dýrari á vetrum; bæði húsaleiga og margar aðrar lífsnauðsynjar eru þá í hærra verði, og þótt margir býsnist yfir sex króna kaupi þingmanna, þá mun það þó ekki gera meira en hrökkva til á vetrin.

Vel getur verið, að sá tími, sem frv. ákveður, sé ekki heppilegur — hagfeldara mundi, að þing byrjaði í júní, því að þá kæmust bændur heim til búa sinna, áður heyönnum væri lokið.

Áðan var þess getið, að með núverandi fyrirkomulagi væri kennarastétt landsins útilokuð frá þingsetu og væri það til stórskaða, þar sem ein hin mentaðasta stétt landsins á í hlut og á, hverju þingi liggja fyrir ýmiskonar mentamál, sem nauðsynlegt er, að hafa skólamenn í ráðum með. Þessi núverandi þingtími er að eins góður fyrir Reykvíkinga, öllum öðrum er hann óhagfeldur.

Eg vil því mæla með, að nefnd verði kosin í málið, til þess að athuga það vel.