17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

84. mál, færsla þingtímans

Björn Sigfússon:

Mér er nauðugt að lengja 1. umr. meira, enda hefir því flestu verið svarað, sem hv. 2. þm. Árn. (S. S.) hefir haft fram að flytja. Þó vil eg minna hann á, að það er rangt, sem hann sagði, að á síðasta þingi hefði að eins einn þingm. verið með færslu þingtímans. Þetta er svo gersamlegt rangmæli eða misminni, að þá var að eins einn þingm., sem hafði á móti þingtímafærslunni, þegar um það var talað. Það leyndi sér ekki, að þá strax fundu margir, að misráðið hafði verið að færa tímann frá sumrinu til vetrarins.

Háttv. þm. hefir svo oft talað um vináttu sína til bænda og áhuga sinn á málefnum þeirra, að eg er farinn að trúa, að hann meini eitthvað með því, en ekki finst mér hann gera mikið úr reynslu og áliti mínu eða annara bænda, að því er til þessa máls kemur; má þó undarlegt heita, ef við finnum ekki eins vel hvað okkur hentar eins og hann, sem aldrei hefir í þeirri stöðu verið. Eg hefi nú alllengi fengist við búskapinn, og setið bæði á sumar- og vetrarþingum. Reynslan hefir sannfært mig um það, að hægra er að útvega mann í sinn stað um sumar en vetur.

Hafi eg tekið rétt eftir, mintist hinn háttv. þm. áðan á, að bændum bæri nauðsyn til að vera heima á vorin, ef heyskort bæri að hendi. Með þessu færir hann rök fyrir okkar máli, að síðari hluti vetrar sé óhentugur tími. Það verður lítið úr ráðstöfunum fyrir búin á öðru landshorni, meðan setið er hér í Reykjavík eða á heimleið á vorin.

Nú mun flest vera tekið fram þessu máli viðvíkjandi; eg vona að nefnd verði skipuð, en verði málið felt nefndarlaust, þá mun það vekja megna óánægju.