17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

84. mál, færsla þingtímans

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Eg vil að eins gera stutta athugasemd. Það er nú orðið ljóst af ræðum hv. 2. þm. Árn. (S. S.) og hv. 2. þm. Húnv. (B. S.), að eg hefi haft rétt fyrir mér er eg gat þess til áðan, að þetta mál hefði verið rætt á flokksfundi meiri hlutans, áður en það var lagt fyrir alþingi. Hæstvirtur ráðherra (B. J.) hefir þá hér sem oftar metið meira vilja flokksins en vilja þingdeildarinnar allrar. Fyrir nokkra menn í flokknum hefir hann lagt fram þetta frumv. um færslu þingtímans, en ekki hefir honum dottið í hug að leggja fram frumv. til stjórnarskrárbreytingar, sem þó var skorað á hann að gera af öllum eða nær öllum deildarmönnum. Eg vil taka þetta fram, því þó það sé lítið, lýsir það allvel stjórnarástandinu.