16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

84. mál, færsla þingtímans

Framsm. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Nefndin í þessu máli hefir orðið á eitt mál sátt með tillögur sínar. Það eru 2 brtill., orða- og efnisbreytingar. Nefndin hefir í áliti sínu fært ástæður fyrir þeim, og einnig minst á, hvað móti mælti. Það er því lítil ástæða fyrir mig að fjölyrða um málið, að sinni, eg býst við, að allir háttv. þm. hafi lesið nefndarálitið. Þó skal eg minnast lítið eitt á síðari breytingartillöguna, að í staðinn fyrir »annan samkomudag sama ár«, komi: »annan samkomudag fyrri sama ár«. Það munu vera eins dæmi hér, að konungsvaldinu sé heimilað að fresta samkomu löggjafarþings fram yfir lögmæltan dag, án samþykkis þingsins. Hitt er annað mál, að leyfa konungi að kveðja þingið saman fyrri í viðlögum.

Með því að mér er kunnugt um bollaleggingar stjórnarskrárnefndarinnar um þetta, og það er í ráði að taka upp í stjórnarskrána ákvæði, sem lýtur að þessu, er brtill. fram komin til þess að lögin verði í samræmi við stjórnarskrána. Eg skal ekki fjölyrða meir um málið að sinni, en býst við að talsverðar umræður verði og skiptar skoðanir manna og mun þá svara þeim.