18.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

84. mál, færsla þingtímans

Sigurður Gunnarsson:

Eg hefi litlu við að bæta það, sem háttv. framsm. (J. Ól.) sagði.

Það var háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), sem kvartaði um, að mál þetta væri lítt undirbúið í héraði. Það væri að eins einn þingmálafundur, sem hefði hreyft því. Þetta hygg eg að sé ekki rétt. Það kann að vera, að það hafi ekki verið mikið rætt á þingmálafundum, en eg hefi heyrt marga kvarta yfir því, að þing er háð á þessum tíma og sem ekki líkaði færslan á þingtímanum 1905 og þá hafði ekki einn einasti þingmálafundur óskað eftir, að þingtíminn, væri fluttur.

Eg drap á það við 1. umr., að bændastéttinni sé, að minni ætlan, gert öllu hægra fyrir með að sitja á þingi, ef það er háð að sumrinu.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) sagði, að nú sætu fleiri bændur á þingi en áður og væri það af því, að bændur ættu hægra með að yfirgefa heimili sín að vetrinum en að sumrinu. Þessu verð eg enn að mótmæla. Eg er þessu talsvert kunnugur sem gamall bóndi og einkum er burtuvera bænda frá heimilum sínum á vetrum og framan af vori varasöm nú, þar sem sú breyting er komin á, að vinnufólk er varla til í landinu og það mundi einatt vera erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir góðan bónda, að fá svo góðan mann í sinn stað sem með þyrfti. Einkum gæti þetta orðið hættulegt síðari hluta vetrar og að vorinu, þegar harðindi eru og ef til vill heyþröng. Þá þarf bóndinn sjálfur langhelzt að vera viðstaddur til að leysa úr vandanum.

Enn höfum við ekki haft nema tvö vetrarþing. Það er eftir að sjá, hvernig fer, þegar harðindi koma og fellir, ísinn kreppir að og voði stendur fyrir dyrum, ef sá, sem ábyrgðina ber, forstaða heimilisins, er þá ekki heima.

Þá er kostnaðurinn. Hann er miklu meiri við vetrarþing en ef það væri haldið að sumrinu. Það eru jafnan fleiri eða færri þingmenn, sem fara landveg til þings. Ekki að tala um þegar ís er og ekki er hægt að komast í kringum land, þá get eg hugsað mér, hvernig reikningarnir mundu líta út, þá mundu þeir ef til vill verða tveim þriðjungum hærri en þeir nú eru. Eg fæ því ekki skilið rök háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) að það hamli bændum frá að sitja á þingi, ef þingtíminn sé fluttur, en létti undir með embættismönnunum. — Eg skal játa, að sumir embættismenn eiga hægra með að sitja sumarþing, svo sem kennarar, en að það ýti sérstaklega undir kosningu þeirra á þing fæ eg ekki séð; þeir virðast geta ofur vel sótt þing, þótt að vetrarlagi sé.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) lýsti átakanlega spillingunni í pólitíska lífinu að ofan nú á síðari árum. Eg játa með honum að svo sé, og að of mörgum reykvískum embættismönnum sé hleypt að þinginu, en eg verð að taka það fram, að ætli hann sér að eyða þessari spillingu, sem hann álítur að sé komin hér inn, þá held eg, að það eitt að halda vetrarþing sé ekki nægilegt til þess að útrýma henni. Hann verður að gera eitthvað meira. Annars treysti eg honum til að standa á móti spillingunni hvað hann sjálfan snertir; þó hann sé ekki bóndi, þá er hann þó bóndaígildi og alinn upp við bændakjör.

Þá hélt hann því fram, að aðalástæðan hjá okkur fyrir færslu þingtímans, væri að fá húsnæði handa væntanlegum háskóla hér í þinghúsinu. Þetta er ekki satt og orð hans í þessu sambandi voru mjög óviðeigandi.

Rök hans fyrir því, að vér ekki þyrftum háskóla með, voru þau, að vér hefðum verið án hans í þúsund ár og gætum því komist af án háskóla framvegis. Eftir hans skoðun á þá alt að standa í stað. Eg hefi aldrei heyrt greinilegri vantraustsyfirlýsingu til þjóðar en þessa. Hvað eigum vér þá að gera með þjóðfrelsi og þingræði? Það hefir aldrei verið ætlun okkar, að háskólinn ætti hér húsnæði um aldur og æfi. En af því fjárhagurinn er allþröngur nú, þá höfðum vér hugsað oss, að háskólinn gæti haft húsnæði hér fyrst um sinn, þangað til bygt yrði hús handa honum og með því móti kostaði tiltölulega lítið að setja hann á stofn.

Háttv. þm. Mýr. (J. S) tók það fram, að myndarlegra væri að byggja nýtt hús handa háskólanum. Sem stendur getum vér það ekki. Bæði mundi það, eins og eg hefi sagt, óþarft, og tefja alt of mikið fyrir að fá hann settan á stofn. Eg er alls ekki viss um að kjósendur í Árnessýslu séu svo andvígir þessu máli, sem háttv. þm. vill vera láta. Þeir munu þvert á móti kannast við, að þar liggur við heiður þjóðar vorrar.

Eins og háttv. framsögumaður (J. Ó.) tók fram, þá hallaðist nefndin að 1. júlí, sem samkomudegi þings. Eg fyrir mitt leyti hefði heldur kosið 17. júní, en get þó vel fallist á hitt.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) talaði um 15. nóv. Eg sé ekki, að sá tími sé hentugur, af því hinir mörgu hátíðisdagar um jól og nýár mundu þá lenda í miðjum þingtímanum. Svo mundu fjárlögin ekki vera búin fyrir nýár, ef þingið kæmi saman 15. nóv. og eg álít það sé ekki heppilegt, að þau séu ekki tilbúin fyr en fjárhagsárið er byrjað.