16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

84. mál, færsla þingtímans

Sigurður Sigurðsson:

Háttv. 2. þm. S.-Mú1. (J. Ól.) gerði ýmsar athugasemdir við ræðu mína, en var óvenjulega hógvær og kurteis að þessu sinni. Það getur vel verið, að eg hafi talað eitthvað ógætilega um embættismennina, en eg vil benda á, að eg átti ekki eingöngu við þá menn, er sitja í embættum, heldur alla þá, sem alment eru kallaðir »lærðir menn«, t. d. ritstjóra og marga aðra. Að öðru leyti finn eg ekki ástæðu til að svara hinum háttv. þingm.

Háttv. þm. Snæf. (S. G.) sagði, að vetrarþingin mundu reynast kostnaðarsamari en sumarþingin. Eg hefi heyrt þess getið, að ef þingtíminn yrði aftur færður fram til sumars, þá mundi verða farið fram á, að hækkaðir yrðu dagpeningar þingmanna, og mun þá lítið sparast við sumarþingin, þó að minna fari þá í ljós og hita. Hinn háttv. þm. hélt því fram, að sjómönnum væri nú því nær ómögulegt að sitja á þingi. En ef þing væri látið hefjast 15. nóv., þá væri sá tími þeim vel hentur, eins og flestum öðrum. Eg skal ekki minnast frekar á háskólann, en þar sem háttv. þm Snæf. (S. G.) dró þá ályktun af orðum mínum viðvíkjandi því, sem eg sagði, að við hefðum verið án hans í þúsund ár, að í þeim fælist »vantraustsyfirlýsing« — mönnum er nú svo tamt að nota það orð — á menningarþroska þjóðarinnar, þá vil eg mótmæla því, að það sé rétt ályktun. Orð mín gáfu ekki tilefni til slíkra ummæla, enda munu þau ekki hafa hneykslað aðra en hann. En ef til vill er honum annara um háskólann en flestum öðrum mönnum, væntanlega samt ekki vegna þess, að tengdasonur hans sé tilvonandi kennari við hann. En alt skraf þingm. um að sumarþing séu bændum hentugri heldur en að þau séu haldin að vetrinum, er endurtekning á því, sem hann hefir áður sagt um það efni, og er því margsvarað og það marghrakið. Skal eg því ekki eyða tímanum með því að endurtaka mótmæli mín gegn slíkri villukenningu.