16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

84. mál, færsla þingtímans

Hálfdan Guðjónsson:

Eg verð að bæta við fáeinum orðum við umræðurnar vegna þess að fáir hafa lagt liðsyrði þeim degi, sem eg hygg beztan, nefnilega 15. nóv. Við vitum allir, að svo er ástatt um tvær fjölmennar stéttir, bændur og sjómenn, að þeim er bagaminst að vera heiman að fyrri part vetrar. Um skipstjóra heyri eg sagt, að þeim sé ókleift að sitja á þingi á öðrum tíma, en um bændur er það að segja, að eg hygg núverandi þingtíma vera þeim einna óhentastan. Einmitt á þeim tíma mega búin hvað sízt vera forystulaus, þá getur margt það borið að höndum, að á skjótum úrræðum þurfi að halda, og er þá illa fallið, að bóndinn sé hvergi nærri. Enda hefi eg heyrt marga bændur segja, að þeim væri ógerningur að sitja á þingi á þessum tíma, jafnvel sumartíminn væri miklu betur til þess fallinn, því öll bústjórn væri vandaminni um sláttinn og þá auðveldara að fá fullgildan mann í sinn stað. En 15. nóv. eru bæði heyannir og haustannir um garð gengnar, þá er gott tóm og næði í sveitunum og eiga bændur aldrei betur heimangengt en þá. Flestar mótbárurnar móti vetrarþingunum hafa verið miðaðar við þing seinni hluta vetrar, en flestar þeirra verða að engu, ef þing væri haldið fyrri hluta vetrar. Á þeim tíma eru samgöngur svo greiðar, að engum gæti orðið torsótt á þing; erfiðara yrði ef til vill að komast heim til sín aftur um miðjan veturinn, en úr því að menn hafa getað komist á þing á þessum tíma, þá yrði mönnum að líkindum ekki skotaskuld úr því að ná heim til sín á sama tíma.

Í sambandi við þetta vil eg geta þess, að fast þingfararkaup mundi vinsælla. Þá þyrfti engum að ámæla um það, hvað hann gerir sér í ferðakostnað; en um það hefir oft verið mikið þref, og stundum að óþörfu.

Ein helzta mótbáran móti þinghaldi fyrri hluta vetrar er sú, að jólin séu á þeim tíma, svo að margir helgir dagar gangi frá þingstörfum; en um jólin eru ekki að mun fleiri dagar helgir en um páskaleytið, er 5 helgidaga ber upp á 8 daga tímabil, og ekki get eg séð neitt á móti því, að þingfundir væri haldnir á rúmhelgum dögum milli jóla og nýjárs.

Í nefndarálitinu er sagt, að mörgum mundi vera sárt um að vera heiman að um jólin. Get eg tekið undir það. Jólin eru hátíð heimilisins og fjölskyldunnar, og mun þá flestum vera kærast að vera á heimili sínu.

Einn háttv. þm. drap á það í ræðu sinni áðan, að mönnum mundi vera sárast um, að vera að heiman um jólin vegna tilhugsunarinnar um hangikjöt og magála, en eg fullyrði, að jólin veki hjá flestum aðrar endurminningar kærari og helgari. Þrátt fyrir það mun eg greiða atkvæði með breytingartillögunni, að þing hefjist 15. nóv.