02.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Bjarni Jónsson:

Við höfum gert dálitla breytingartillögu við frumv., og mig langaði til að gera grein fyrir, hvers vegna hún er komin fram, og sömuleiðis segja álit mitt um eftirlaun alment. Eftirlaunin eru styrkur, sem þjóðin veitir hjúum sínum; svo er það alment talið, að skylda þjóðarinnar sé að sjá um, að þeir, sem lengi hafa verið í hennar þjónustu og eytt kröftum sínum í hennar þarfir þurfi ekki að komast á vonarvöl á elliárunum. En þá er hitt ránglátt, að margir eru þeir, sem ekki hafa eftirlaun, t. d. bankastjórar, landsverkfræðingar og ýmsir sýslunarmenn En hvað sem um þetta er, þá á ráðherrann enga kröfu til eftirlauna af því, að hann þjónar landinu svo skamma stund. Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og eg bárum fram á síðasta þingi frumv. um ráðherraeftirlaun. Var þar ákveðið, að hann skyldi hafa eftirlaun í jafnmörg ár og hann hefði þjónað embættinu. En þá var það sagt af lögfróðum mönnum, að stjórnarskrárbreytingu þyrfti til þess þau gætu náð fram að ganga.

En nú höfum við gert breytingartillögu til þess að færa frumv. til samræmis við stjórnarskrána. Önnur lækkar eftirlaunin um 200 kr. á ári, svo að þau eru ákveðin 1000 kr. árlega. Hin breytingartillagan nemur burt ákvæðið um, að hann skuli hafa eftirlaun að eins í jafnmörg ár og hann hefir þjónað embættinu. 1. gr. hljóðar þá þannig:

»Ráðherra Íslands skal hafa í eftirlaun 1000 kr. á ári«.

Raunar eru þau þó of há, en þó vonum við, að við þetta megi una, því ekki mun líða á löngu, þangað til eftirlaunin verða afnumin með öllu.

Að svo mæltu vona eg, að háttv. deild samþykki frumv.