02.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Jón Þorkelsson:

Það er alveg rétt, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) tók fram, að það er meining okkar, að hafi ráðherrann verið embættismaður áður, þá heldur hann þeim eftirlaunum, sem hann hafði rétt til fyrir það embætti, ef þau eru hærri en ráðherraeftirlaunin. Aftur á móti er skilningur háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) alveg rangur. Það situr ekki á honum, að vera að gera okkur flutningsmönnunum upp þann tilgang og tilætlun, eftir að við höfum lýst yfir því, hver tilgangur okkar sé.

Við 3. umr. skal eg koma með breytingartillögu, sem mun útiloka allan misskilning hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) og finn því ekki hvöt hjá mér að svo vöxnu máli, að vera að gegna þrefi hans. Það er ekki hættulaust fyrir fjárhag landsins, að ráðherrar hafi há eftirlaun og þarf það engrar útmálunar.

Eg vona, að mál þetta gangi greiðlega gegnum deildina. Flestir menn í landinu munu vera á okkar máli um þetta efni, og ætlast til, að þingið fari því fram í þessu máli, sem hollast er, og nú höldum við fram, er flytjum málið.