20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

97. mál, eftirlaunahækkun

Sigurður Gunnarsson:

Mér virðist háttv. flutningsm. (S. S.) eigi hafa fært nægileg rök að því, að einmitt nú sé rétt að gera breytingu á eftirlaunalögunum. Eg er ekki viss um, að þjóðin óski þess. Á þingmálafundum út um land hafa komið fram tillögur í þá átt, að eftirlaun séu alveg afnumin, eða þau megi afnema með einföldum lögum, en mér vitanlega ekki um, að þau verði lækkuð. Nú er stjórnarskrárbreyting einmitt í aðsigi og ein breytingin er þessi, að eftirlaun embættismanna megi afnema með einföldum lögum.

Þegar fyrst þetta er komið í kring virðist ástæða til að ræða málið í sambandi við væntanlega breyting á launalögunum. Það er því eigi ástæða til nýrra laga um lækkun eftirlauna nú, miklu fremur ástæða til að afnema þau alveg, undir eins og stjórnarskráin leyfir það, en væntanlega yrði þá um leið að endurskoða sjálf launalögin í sambandi þar við, en eg skal þó ekki hafa á móti nefnd, sem væntanlega yrði 5 manna nefnd, til þess að það komi í ljós, hvort aðrir séu ekki sömu skoðunar um þetta og eg.