20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

97. mál, eftirlaunahækkun

Flutn.m. (Sig. Sigurðsson):

Það er að eins stutt athugasemd við ræðu h. þm. Snæf. (S. G.). Hann lét þess getið að með stjórnarskrárbreytingunni mundi það verða ákveðið, að eftirlaun mætti afnema með einföldum lögum. Þetta er nú mikið gott og eg skal játa það, að öll sanngirnin mælir með því, að eftirlaun séu afnumin með öllu. — En það kom einnig í ljós hjá háttv. ræðumanni að afnám eftirlauna hlyti að standa í sambandi við launahækkun embættismanna. Kemur þar að spá minni, enda býst eg við, að reynslan muni sýna það, að þótt eftirlaun verði afnumin og launin hækkuð, þá muni samt koma eftirlaunabeiðnir til þingsins og ekki ólíklegt, að þeim verði oft sint. Eg hygg því miklu réttara að fara þessa leið, sem frumv. bendir á, að færa eftirlaunin niður að miklum mun og það strax. Þótt stjórnarskrárbreytingin geri ráð fyrir, að afnema megi öll eftirlaun með einföldum lögum, þá er það ekki strax komið á. Fyrst verður reynt að hækka launin, og þegar það er um garð gengið, verður farið að bollaleggja um eftirlaunin, og þá er ekki séð, hvernig fer um þau, og getur þess orðið langt að bíða, að þau verði afnumin. Sú skipun þingsins er einnig hugsanleg, að það hækki að eins launin, en láti eftirlaunin haldast. Eg hygg það sé því ráðlegast að samþykkja þetta frumvarp, sem nú liggur fyrir, og það helzt óbreytt.