03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

158. mál, eftirlaunaafnám

Framsögum. (Sigurður Sigurðsson); Það er óþarft að fara mörgum orðum um þessa till. Nefnd sú, sem kosin var til þess að athuga frumv. um lækkun eftirlauna, sá sér eigi fært að halda því til streitu að þessu sinni. En í stað þess kemur hún með þessa till. til stjórnarinnar um að undirbúa málið um afnám eftirlauna og skyldu embættismanna til þess að safna sér ellistyrk og leggja tillögur sínar þar að lútandi fyrir alþingi. Nefndin eða meiri hluti hennar er þeirrar skoðunar, að ef afnám eftirlauna eigi að geta komist í framkvæmd, þá sé óhjákvæmileg nauðsyn að skylda embættismenn til þess að safna sér ellistyrk.

Eg skal ekki fara út í þá sálma, hvort þetta er viðfeldið eða ekki. Eg veit, að sumir telja þetta ófrelsi; en eg hygg að það sé samt eini vegurinn til þess að girða fyrir það, að ekki rigni inn á þingið umsóknum um eftirlaun og ellistyrk. Eg skal ekki fjölyrða frekar um þetta, en vona að till. verði samþykt.