05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

158. mál, eftirlaunaafnám

Jón Magnússon:

Eg get verið stuttorður, því að háttv. l.þm. S.-Múl. (J.J.) hefir tekið alt það fram, sem eg vildi sagt hafa. Eg vil aðeins beina þeirri spurning til hins háttv. framsm. (S. S.), hvort hann hefir athugað, að þessi till. fer í bág við alla stefnu þingsins í eftirlaunamálum. Þegar prestaeftirlaunalögin voru samin, þá var landssjóði gert að skyldu, að leggja fé fram að sínu leyti. Lögin um almennan ellistyrk byggjast á hinu sama ákvæði, en hér er farið fram á, að skylda embættismenn til að leggja í sjóð, án þess neitt tillag úr landssjóði komi á móti. Nýlega hafa eftirlaun embættismanna verið lækkuð svo, að það er alveg meiningarlaust, að vera að bera þau saman við hin gömlu eftirlaun. Samkv. hinum gömlu eftirlaunalögum fengu fáeinir menn mjög há eftirlaun, svo tugum þúsunda skifti, en nú gegnir alt öðru máli. Eg sé ekki betur, en að tillagan fari beint fram á að afnema eftirlaun, en vitanlega þarf stjórnin ekki að sinna því, fremur en henni sýnist og til hvers ættu menn þá að vera að samþykkja slíka tillögu? Það er yfir höfuð ósiður, að vera altaf að samþykkja þingsál.till., og það jafnvel án þess, að deildin ætlist til, að tekið verði tillit til þeirra. Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en vil eindregið mæla á móti því, að till. verði samþykt.