03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

158. mál, eftirlaunaafnám

Framsm. (Sigurður Sigurðsson):

Eg bjóst ekki við svona miklum umræðum um tillöguna, en tel þær til bóta, því að þær miða að því að skýra málið.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) reyndi að snúa út úr till., en eg hygg raunar, að það muni stafa af því, hve meinilla honum er við allar þingsályktunartillögur. Hann skildi tillöguna svo, að hún færi fram á afnám allra eftirlauna. Það gerir hún að vísu, en tillagan ætlast jafnframt til, að í stað þeirra komi ellistyrkur. Því miður er nú því máli, ellistyrktarsjóðsmálinu, helzt til skamt á veg komið hjá oss, að því er alþýðuna snertir. En vonandi verða sjóðir þeir, sem þegar eru komnir á fót eða verða stofnaðir, svo öflugir, að engir þurfi að fara á sveitina í framtíðinni.

Óánægja manna með eftirlaunin er aðallega sprottin af þeim mismun, sem gerður er á embættismönnum og öðrum stéttum. Embættismenn fá sín eftirlaun eftir unnið æfistarf, en óbreyttir alþýðumenn, sem unnið hafa alla æfi baki brotnu og komið þungri fjölskyldu fram, verða að fara á sveitina.

Eg kannast við, að mér féll frumvarpið betur en þessi tillaga. Þar var farið fram á það, að lækka eftirlaunin svo mikið, að varla hefði þurft að óttast óánægju út af þeim. En það má vel vera, að afnám eftirlauna reynist samt vinsælla, þótt það hafi í för með sér hækkun á launum sumra embættismanna.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagðist hafa verið með afnámi eftirlauna áður fyr, af því að hann áleit í þeim felast misrétti milli embættismanna og alþýðu. Þetta misrétti á sér enn stað og er ekki horfið, þótt vonandi sé, að það hverfi smátt og smátt.

Viðvíkjandi því, að afnám eftirlauna fari í bága við stjórnarskrána, þá var nefndinni það fullljóst og því kom hún með málið í tillöguformi. En með því, að ekki er útséð um stjórnarskrármálið vil eg leyfa mér að styðja tilmæli hv. þm. S.-Þing. (P. J.) um, að tillagan verði tekin út af dagskrá.