18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

120. mál, farmgjald

Framsm. minni hl. (Hannes Hafstein):

Eg get að miklu leyti skírskotað til nefndarálits minni hlutans á þgskj. 650 og hefi eg litlu við að bæta það, sem þar stendur. Enda mun ekki vera til mikils að koma með ástæður gegn frumv. þessu, því mun vera trygð braut hér gegn um deildina, hvað sem sagt er.

Í skattanefndinni kom öllum saman um, að finna yrði eitthvert ráð til þess að bæta úr þeim tekjumissi, sem aðflutningsbannið bakar landssjóði. Og öll nefndin var sammála um það, að æskilegast væri að finna einhvern tekjustofn, sem ekki legði aukin gjöld á lífsnauðsynjar manna. Tók nefndin til athugunar, hvort ekki mundi mega fá tekjur, án þess að íþyngja gjaldendum, með því að landið tæki einkasölu á einhverjum vörutegundum, er mikið kveður að, og hefði tekjur af söluarðinum, án þess varan þyrfti að hækka í verði fyrir það. En á þessu þingi var ómögulegt að framkvæma þær rannsóknir og íhuganir, sem nauðsynlegar eru, áður nokkuð verði sagt um þetta mál með vissu. Aftur á móti vill nefndin, að þetta sé rannsakað í milliþinganefnd til næsta þings. Þar sem nú meiri hluti nefndarinnar hefir aðhylst þetta frumv. verð eg að ganga út frá því, að þeir, sem vænta einkasölufrumvarps á næsta þingi, skoði þetta frumv. að eins sem bráðabirgðarfyrirkomulag fremur en til frambúðar. En bráðabirgðafyrirkomulag verður fyrst og fremst — auk almennra réttlætisskilyrða, — að fullnægja því skilyrði, að vera handhægt, gera sem minsta gagngerða breyting á þeim meginreglum, sem annars er fylgt í landinu. En því fer afarfjarri, að frumv. fullnægi þessu meginskilyrði. Þvert á móti umsteypir það alveg öllum þeim grundvelli, sem tolllöggjöf vor hefir verið bygð á til þessa, og innleiðir nýtt. Hingað til höfum við hagað tolllögum okkar þannig, að þau gætu orðið framkvæmd án sérstaks tollgæzluliðs, tolla sem fæstar vörur, og að eins þær, sem eru munaðarvörur eða að minsta kosti ekki lífsnauðsynjavörur. En þetta frumv. leggur lága en þó mismunandi tolla á flestallar vörutegundir, sem til landsins flytjast, og eru þess eðlis, að lífs ómögulegt er að framfylgja því nema með því að gera víðtækar ráðstafanir til tollgæzlu, sem hefði bæði afarmikla fyrirhöfn og afarmikinn kostnað í för með sér. Þetta gerir í mínum augum frv. alveg ómögulegt til bráðabirgðafyrirkomulags. En hvernig væri það þá til frambúðar?

Eg skal að svo stöddu ekki fara út í »krítík« á einstökum greinum og flokkaskifting frumv. Eg veit að höfundinum hefir gengið gott eitt til þess að koma með það og hann hefir gert þetta eins vel og hann gat. En eg skil ekki, hvers vegna hann heldur áfram að kalla þessa tolla »farmgjald«. Eins og frumv. er nú, er það nafn alveg meiningarlaust og villandi. Nú er frv. ekki annað en »Toldtarif«, það er gjaldskrá yfir toll af flestum þeim vörum, sem flytjast til landsins. Þetta fyrirkomulag er svo sem ekki nein ný uppfundning. Það er gamla meginlands tollreglan, sem hér gægist fram með öllum kostum og kynjum, að eins í dálítið halakliptu og annkanalegu formi. Það er gamla tollrófan, sem Evrópulöndin flest ennþá frá gamalli tíð mega dragast með og stynja undir, með sínum óheyrilega kostnaði til tolleftirlits og öllum þeim óeðlilegu höftum á frjálsri verzlun og vernd fyrir innlent »fúsk«, sem það alstaðar hefir í för með sér, er til lengdar lætur. Það er hægra að koma slíku á, heldur en losna við það aftur, eins og hefir sýnt sig, þegar frjálslyndari flokkarnir í löndunum, sem hafa þessi tollkerfi, hafa verið að reyna að losa um viðjarnar.

Einn aðalókosturinn við slík tollbákn er það, að vegna kostnaðarins við eftirlit og innheimtu, svo og vegna arðs þess, er kaupmenn taka sér af tollunum verður almenningur að borga svo miklu meira heldur en féhirzlunni, — landssjóði — kemur að notum. Og þessi ónauðsynlegi gjaldþungi legst ætíð tiltölulega þyngst á fátækari stéttirnar, hversu vel sem reynt er að vanda til þess, að haga upphæð tollsins á hverri vörutegund svo, að hæst gjald leggist á þær vörur, sem ekki eru nauðsynjavörur og þeir efnameiri aðallega kaupa. En þegar gjaldinu er skift niður á vörurnar, eins og í þessu frumvarpi, þar sem slept er algerlega öllu tilliti til réttlætis og sanngirni í gjaldálögunni, þá keyrir slíkt úr öllu hófi.

Sé nokkurri meiginreglu fylgt í gjaldflokkun þessa frumvarps, þá er hún í öllu falli ósýnileg mér, og eg held allflestum, sem lesið hafa frumvarpið. Dýrir málmar tollast eins og eða jafnvel helmingi lægra en eldspítur, hampur, allskonar matvara og nýlenduvörur, gullúrin eins og skófatnaður og tvinni, gullstáss eins og blikkfötur, dýrasta silki og pell eins og stumpasirs og strigi o. s. frv., og yfirhöfuð er ekki hið minsta tillit tekið til þeirrar meginreglu í allri tolllöggjöf, að reyna að láta gjaldið koma sem réttlátast niður. Menn eru annars vanir hér á þingi að gera afarmikið úr þeirri reglu. Sérstaklega hefir bumban verið barin bæði ótt og títt, þegar um dálitla hækkun á kaffi- og sykurtolli hefir verið að ræða. Þá hefir verið kveinað og kvartað um það, og held eg það hafi verið nefnt hér í deildinni seinast í dag, að kaffi- og sykurtollurinn komi mest niður á fátæku fólki. En um þennan allsherjartoll, sem hér er farið fram á að farsæla okkur með, má sanna það svart á hvítu, að hann kemur langtum ranglátar niður en hækkun á kaffi- og sykurtolli, jafnvel þótt hér séu undanskildar ýmsar nauðsynjavörur, svo sem korn, kol og steinolía. Það hefir verið sagt, að þetta væri svo lágt gjald, að engan munaði um það. Það er að vísu ekki mjög hátt, en þó er það upp í 40 krónum af tonninu af sumum nauðsynjavörum, sem síður má án vera en kaffis og jafnvel sykurs, svo sem fatnaði, leðri sútuðu, skinnum sútuðum, skófatnaði, tvinna og allskonar vefnaðarvöru, og það gjald verður í framkvæmd miklu hærra, því að kaupmenn leggja auðvitað miklu meira á vöruna, heldur en nemur tollgjaldinu, sem á að greiða fyrirfram. Og sé það satt, sem eg reyndar stórum efa, að þetta gjald gefi landssjóði af sér 180 þús kr. á ári, þá greiðir almenningur alt að því helmingi hærri upphæð. Af þeirri upphæð fellur auðvitað meginþorrinn á þær vörutegundirnar, sem mest er keypt af, en það eru þær vörur, sem alþýðan og fátæklingar neyðast til að kaupa. Hitt er hverfandi, sem kemur af »luxus«-vörum, sem einkum eða eingöngu eru keyptar af efnafólkinu, þegar toll gjaldið er ekki hærra af þeim vörum heldur en af sömu þyngd af ódýrasta varningi. Og þessi tollur hlýtur að koma, eigi að eins tiltölulega þyngst, heldur með mestri fjárupphæð, niður á fjölskylduheimilunum, sem sízt er rétt að láta blæða fyrir þessum tekjuauka, sem landssjóður nú þarf að fá fyrir vínfangatollinn.

Við minni hluti nefndarinnar getum því með engu móti léð hönd til þess, að kasta þessu óhentuga og óréttláta gjaldi á þjóðina. Það verður að finna einhverja aðra leið til að sjá landssjóði borgið í bráðina. Þetta er alófært sem bráðabirgðafyrirkomulag, hvað sem um það er að segja að öðru leyti. Sumir segja, að hér sé um tilraun að ræða, og stuðningsmenn þessa máls játa sjálfir, að þeir viti ekki hve mikið það mundi gefa af sér. En þá er heldur ekki unt að byggja á því, að þetta sé fullnægjandi. Þá verða þeir sömu menn að setja eitthvað annað við hliðina, ef þessi tilraun skyldi misheppnast. Eg skal ekki fara út í hverjar aðrar leiðir eiga við á þessu fjárhagstímabili. Allir vita, að við blasir bein leið til þess að komast hjá öllu tilraunafálmi út í loftið til þess að útvega landssjóði tekjur í stað vínfangatollsins, meðan verið er að undirbúa betur nýjan skatttekjugrundvöll, og bæta úr vanrækslu fráfarandi stjórnar í þeim efnum.

Að því er snertir framkvæmd þessara laga, farmgjaldslaganna svonefndu, skal eg að endingu að eins benda á, að það má segja með fullri vissu fyrir fram, að fyrst í stað hlýtur að verða mikill vanbrestur á því, að útlend vöruflutningaskip, sem ekki þekkja þessi nýmæli fullnægi fyrirmælunum um vöruskrár og þvíumlíkt.

Það bætir ekki úr skák fyrir innheimtu tollgjaldanna, þó að sektum sé beitt fyrir vanbrest á vöruskrám og öðrum skýrslum, sem ætlast er til að gefnar séu. Vanti skip vöruskrá, verður hið opinbera að láta rannsaka nákvæmlega allan farminn. Og hverjir eiga að gera það? Að heimta slíkt af sýslumönnum, er tómt pappírsgagn, þeir geta blátt áfram ekki annað því, þeir geta ekki verið nema á einum stað í einu. Landið yrði að launa tolllið þess. En um það eru engin ákvæði í frumvarpinu. Eg vil og leiða athygli háttv. flutningsm. að því, að það hlýtur að vera bygt á ókunnugleika, er í 6. gr. laganna segir, að ein farmskrá skuli vera yfir allan farm skips. Það er ómögulegt að hafa eina farmskrá, þegar skipið kemur með vörur frá fleiri löndum en einu, nema þá því að eins, að ætlast sé til, að skipstjóri sjálfur smyrji upp einhverri málamynda farmskrá, sem þá væntanlega oft væri lítið á að byggja. Ætla eg svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, það hefir enga þýðingu að eyða orðum um það, sem er fyrirfram ákveðið. Eg vil aðeins eindregið mótmæla því, að þingið hætti landinu út á þessa hálu braut. Þetta er alveg ófær leið, og lögin í þessu formi ekki til sóma fyrir þingið.