25.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

18. mál, sóknargjöld

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson); Það er alkunnugt, að lögin frá 30. júlí 1909 hafa mætt mikilli mótstöðu og valdið megnri óánægju meðal manna. Hefir það meðal annars komið fram í blöðunum. Óánægjan er tvennskonar. Í fyrsta lagi þykja lögin koma óréttlátlega niður á safnaðarmeðlimum, þar sem allir borga sama gjald, hvernig sem efnahagur þeirra er, og koma þau því mikið þyngra niður á fátækum fjölskyldumanni en efnaðri mönnunum. Meðhaldsmenn laganna segja raunar, að þar sem allir öðlist sama rétt, hljóti þeir einnig að bindast sömu skyldum. En það er samt óeðlilegt mjög að taka ekkert tillit til þess, hverjir helzt geta innt gjöldin af hendi. Einnig er þess að gæta, að sama skyldan er lögð þeim mönnum á herðar, sem alls ekki geta notað prest, svo sem heyrnarlausir og veikir menn.

Þetta er óréttlátt.

Ennfremur er það stór flokkur manna, sem telur lögin óréttlát að öðru leyti, einkum það, að þau skylda þá til að gjalda, sem sannfæringar sinnar vegna alls ekki geta eða vilja nota þjóðkirkjuprest. Og lögin ganga jafn vel svo langt, að þau taka fram fyrir hendurnar á utanþjóðkirkjusöfnuðum, sem ættu þó að geta ráðið sínum gjöldum og jafnað þeim niður eftir vild, Allir þeir, sem ekki tilheyra neinum söfnuði, eru líka skyldaðir til að borga sóknargjöld og það er hið hæsta stig ójafnaðarins. Þetta á að réttlæta með því, að ef slíkt ákvæði stæði ekki, myndu svo margir segja sig úr þjóðkirkjunni. En eg vil þá svara því þann veg, að þjóðkirkjan er þá illa farin, ef ástandið er þannig, og er þá kominn tími til að aðskilja ríki og kirkju. Með þessu frumv. er reynt að ráða bót á höfuðannmarkanum á sóknargjaldalögunum, og vona eg að það fái góðan byr, enda hafa flestir þingmálafundir óskað eftir breytingu á núgildandi lögum um þetta efni.

Út í einstök atriði frv. ætla eg ekki að fara að sinni, en vil leyfa mér, að umræðum loknum, að stinga upp á 8 manna nefnd.