06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

18. mál, sóknargjöld

Sigurður Sigurðsson:

Eg hefi eigi getað orðið alfarið samferða meðnefndarmönnum mínum í þessu máli, og vil eg stuttlega greina hvað á milli ber.

Í frumv. okkar flutningsmanna er farið fram á það, að prestsgjaldinu sé jafnað niður að hálfu leyti eftir efnum og ástæðum. Jafnvel þó eg hljóti að halda því fram, að þetta ákvæði sé mjög til bóta, og bygt á fylstu sanngirni, þá verð eg þó hins vegar að kannast við, að niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum þykir ávalt óvinsæl. Fyrir því hefi eg ekki haldið fast við þetta atriði og geri það eigi að kappsmáli. En þegar kemur að því atriði málsins, hverjir eigi að vera undanþegnir gjaldi til prests og kirkju, þá skilja leiðir. Þar verð eg að halda fast við ákvæði frumvarpsins. Að vísu hefir meiri hluti nefndarinnar tekið upp í sínar breytingartill. ákvæði um undanþágu frá þessum gjöldum. En sú undanþága nær skamt. Þar eru undanþegnir að eins heyrnar- og málleysingjar og fábjánar. Að öðru leyti ætlast meiri hluti nefndarinnar til, að allir gjaldi þessi lögboðnu gjöld til prests og kirkju, hverrar trúar sem þeir eru, eða hvort þeir hafa nokkra trú eða enga, og hvernig sem annars högum þeirra er háttað, nema þeir séu í einhverju viðurkendu kirkjufélagi utan þjóðkirkjunnar, er hafi prest eða forstöðumann, er fengið hafi konunglega staðfestingu. Frá sjónarmiði þjóðkirkjunnar þykir þetta viðeigandi og í alla staði eðlilegt. En óneitanlega er hér að ræða um einhver hin mestu ófrelsishöft, er eiga sér stað. Það er í mesta máta ófrjálslegt, að skylda þá menn til að greiða gjöld til þjóðkirkjunnar, er standa utan hennar og vilja engin mök við hana eiga. Það fyrirkomulag getur ekki þrifist til lengdar.

Þá virðist mér það í alla staði óviðeigandi, að vera að gera það aðskilyrði í lögum um gjöld til þjóðkirkjunnar, hvað utanþjóðkirkjusöfnuðir mega greiða minst til sinnar eigin kirkju til þess að vera lausir við gjöld til þjóðkirkjunnar. Utanþjóðkirkjusöfnuðir eiga vitanlega að vera sjálfráðir um það, hvað þeir gjalda til sinnar eigin kirkju, og það kemur naumast þjóðkirkjunni við, hvort þau gjöld eru krónunni hærri eða lægri fyrir hvern mann innan safnaðarins. Það hefir nú í sjálfu sér enga þýðingu að vera að ræða um það hér, að utanþjóðkirkjumenn, sem ekki eru í neinum söfnuði utan þjóðkirkjunnar, skuli vera lausir við öll gjöld til þjóðkirkjunnar, með því að það er margbúið hér í deildinni að greiða atkvæði um það og jafnan verið felt. Það er því sýnt, að meiri hluti deildarmanna eru þessu atriði mótfallnir. Eg býst því við, að tillaga okkar flutningsmanna um, að allir utanþjóðkirkjumenn skulu undanþegnir gjöldum til prests og kirkju fái ekki byr og verði feld. En þá hefir frumv. mist aðalþýðingu sína í mínum augum, og læt eg mér þá úr því í léttu rúmi liggja, hver verða afdrif þess.