10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

18. mál, sóknargjöld

Pétur Jónsson:

Ef eg skil rétt tillögu háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) á þskj. 616, þá er hún ekki sem réttlátust. Eg skil hana svo, að miða eigi upphæð launanna við tekjumagn síðasta árs á undan, en við verðlag síðustu 5 ára. Þetta mun helzt gert með hag prestsins á Hvanneyri fyrir augum, enda mun tillagan flutt sérstaklega með tilliti til hans og honum í hag. En eg álít ekki rétt að breyta þeirri frumreglu, að miða tekjurnar að öllu leyti við meðaltal síðustu 5 eða 10 ára. Setjum svo, að það sé hagstætt fyrir prestinn á Hvanneyri, en annarsstaðar getur það gagnstæða átt sér stað, og því orðið prestunum til skaða. Á preststekjum eftir hinum gömlu lögum urðu allmikil áraskifti, ekki einungis á verði tekna, heldur og á tekjumagni. Einum getur verið hagur að því, að miðað sé við síðasta árið, öðrum aftur á móti skaði, því það hefir staðið illa á á þeim stað það árið. Að miða við fleiri ára meðaltal er því til þess að draga úr slíkum skakkaföllum og má því telja það orðna frumreglu í þessum sökum.

Ef það er réttlát krafa hjá prestinum á Hvanneyri, að miða einmitt við síðasta árið, þá nær hún of skamt. Þá ætti að miða við það, sem tekjurnar á hverju ári hans prestsskapar, frá því tekjubreytingin komst á og framvegis, næmu eftir gömlu lögunum. Í því er hugsun, þótt hún sé ekki vel framkvæmanleg. Nú vill svo til með þennan prest, að þótt hann telji sér skaða að tekjubreytingunni, þá hafa tekjur brauðsins aukist mikið, síðan hann fékk brauðið og eru langt fram úr því mati, sem hann tók brauðið eftir. Mætti hann því allvel við una.

Um matið að öðru leyti vil eg taka það fram sem mína skoðun, að eg vil hafa sem minstar undanþágur frá gjaldi til prests og kirkju. Geta þær oft orðið til að koma sóknarnefndunum í vafa og draga úr tekjum prestlaunasjóðsins, sem er einn af vösum landssjóðs nú. Skattanefndin (milliþinga) hafði til meðferðar og samdi frumvarpið til sóknargjaldalaganna. Var hún á því máli, að sem fæstar undanþágur ættu að eiga sér stað. Eg get felt mig við að undanþiggja örvasa gamalmenni, einungis þó svo, að aldurstakmarkið sé hátt.

Að undanþága frá gjöldum sé fyrir sjúkdómssakir, getur vakið vafa og óánægju. Eg veit, að það þykir í frelsisáttina, að veita margar undanþágur, en eg álít það misskilning. Hið sanna kirkjulega frelsi, sem menn eru að þrá er ekki undir þessum lögum komið, hvorki til né frá.