10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

18. mál, sóknargjöld

Frsm. (Eggert Pálsson):

Eg skal taka það fram, að eg get fyrir mitt leyti felt mig við brtill. á þgskj. 616, að því leyti, er breyting á fyrirsögn og inngangi frv. snertir og sé ekkert því til fyrirstöðu, að það sé samþykt. En að því leyti, er snertir merginn í þeim tillögum, hlýt eg að leggja á móti þeim fyrir nefndarinnar hönd. Það er víst og satt, að tekjumissir sá, er hér um ræðir, er í sumum tilfellum alltilfinnanlegur fyrir presta, en langtilfinnanlegastur mun hann vera fyrir prestinn á Hvanneyri.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) gat þess, að hann mundi nema 200 kr. árlega og er það allmikil upphæð. En þau tilfelli eru næsta fá, að svo miklu muni. Aftur á móti munu þau prestaköll vera mörg, þar sem tekjumissirinn er ekki mikill, en þó nokkur. Aðalgallann á því að breyta til í þessu efni tel eg vera það, að ómögulegt er að sjá fyrir, hversu mikið prestlaunasjóð mundi muna það, en geng út frá því sem sjálfsögðu, að það mundi reynast talsvert. Það er þetta atriði, sem gerir það sérstaklega óaðgengilegt að ganga að þessari breyt.till.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) mælti með breytingartillögum sínum sem vænta mátti. Þykir honum ósanngjarnt, að 15 ára unglingar skuli eiga að greiða þessi gjöld, en finst það vera álitamál um 16 ára unglinga. Það er nú í raun og veru um unglingana að segja, bæði 15 og 16 ára, að þeir fá í hvorugu tilfellinu mikið kaup. Er þetta gjald jafnaðarlegast greitt af forráðamönnum þeirra. Þegar unglingar eru orðnir 15 ára, þá eru þeir komnir af sjálfum ómagaaldrinum og geta notast til ýmsra snúninga, þótt ekki vinni þeir eiginlega fyrir kaupi. Munu foreldrar eða aðstandendur vera fegnari en svo að losna við þann kostnað, sem af uppeldinu leiðir, að þeir telji það ekki eftir, að greiða þetta gjald fyrir þá, enda hefi eg enga óánægju heyrt um það atriði.

Hvað aldurstakmarkið að ofan áhrærir, hefir nefndin stutt að því, að hámark aldursins sé 75 ár. Hinn sami þm. leggur til, að það sé 60 eða 65 ár. Nú er það stefna nefndarinnar, að rýra tekjur prestlaunasjóðsins sem minst að hægt er, og þess vegna getur hún ekki fallist á þetta atriði. Þess ber og að gæta, að menn undir 75 ára aldri eru naumast karlægir menn orðnir. Menn milli 60 og 70 ára eru þvert á móti oft eins starfsfærir og ungir væru, svo að nefndinni fanst ekki ástæða til að leysa þá frá þessu gjaldi. Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gat þess um brtill. 533, sem hljóðar um að veita undanþágu frá þessu gjaldi þeim, sem teldu sig utan þjóðkirkjunnar, að hann vildi með því vernda persónufrelsi og trúfrelsi manna.

Það er náttúrlega lofsverður tilgangur slíkt. En þó því að eins getur það talist rétt, að annar réttur sé ekki með því skertur. En svo virðist mér hljóti að vera, eins og eg benti á áðan.

Hann sagði, að rangt væri að skylda menn til að styðja það, sem þeir teldu sér ekki til neinna þrifa. En væri sú regla rétt, þá þyrfti að breyta mörgu í lögum vorum. Nú er mönnum t. d. gert að skyldu að styðja barnauppfræðslu með fjárframlagi, þótt engin börn eigi þeir sjálfir. Og hvers vegna er það gert? Það er af því, að löggjafarvaldið álítur það til þrifa fyrir þjóðfélagið í heildinni. Sama er um það mál að segja, sem hér er um að ræða. Ef löggjafarvaldið álítur trú og kirkju til þrifa fyrir þjóðina, þá er það skylda þess að styðja það hvorttveggja. Hefi eg svo ekki meira að segja um þetta frumv. að svo vöxnu máli.