07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

21. mál, búpeningsskoðun og heyásetning

Jón Sigurðsson:

Eg skal þegar taka það fram, að eg er eindregið fylgjandi minni hluta nefndarinnar í þessu máli. Hvað snertir breytingar frumv. á núgildandi lögum, skal eg fyrst snúa mér að haustskoðuninni. Þá breytingu tel eg óheppilega. Haustskoðanir eru svo mikið vandaverk, að hætt er við, að þær komi að litlum notum. Það er erfitt að setja á á haustum, jarðir eru svo misjafnar, beitin misjöfn og fóðurgildi mismunandi, eftir því hvort heyið er smátt eða stórt. Ásetningin verður að grundvallast á meðvitund sjálfra eigendanna. Skoðanir eru ekki ábyggilegar, þær forða ekki frá horfelli, því að menn fella ekki skepnur sínar viljandi, heldur ber þar til náttúra landsins. Margar sveitir eru svo, að ekki verður komið við skoðun. Á dalajörðum verður ekki heimtuð sama ásetning, sem á gjafajörðum. Á dalajörðum er það beitin, sem er aðal atriðið, t. d. víða í Borgarfirði, Dalasýslu og víðar. Á slíkum jörðum er það reynslan, sem kennir mönnum. Enda verður ekki séð, að afkoma manna sé lakari á þeim stöðum en annarsstaðar. Af þessum ástæðum er alveg þýðingarlaust að setja opinbera starfsmenn til að sjá um heyásetning á haustum. Enda hefir sú orðið raunin á, að þó þeir hafi komið á bæi til eftirlits, hafa þeir ekki bætt.

Hvað viðvíkur öðrum breytingum, skal eg sérstaklega taka það fram, að ef sektarákvæðin eru tekin burtu, verða lögin enn þýðingarminni, því að þá geta þau ekki komið að notum; sektum er ekki beitt, nema um eitthvað beint vítavert er að ræða. Það verður auðvitað að beita sektum skynsamlega, en rétt er að sekta, þegar um miskunnarlausa meðferð er að ræða.

Eg skal svo ekki orðlengja um frv. að þessu sinni, en mæli fastlega með því, að það verði felt.