07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

21. mál, búpeningsskoðun og heyásetning

Framsm. minni hl. (Stefán Stefánsson):

Eins og menn sjá af nefndarálitinu, hefir nefndin í þessu máli klofnað, og auk þess einn nefndarmaðurinn ritað undir með fyrirvara. Afstaða hans mun vera sú, að hann sé mótfallinn tveimur fjár- og fóðurbirgðaskoðunum, og sömuleiðis sektarákvæðum horfellislaganna, og myndar þannig meiri og minni hluta í nefndarklofningunum í hvoru þessu ágreiningsatriði fyrir sig, en að sjálfsögðu gerir hann grein fyrir afstöðu sinni nú við umræðuna.

Aðallega eru það að eins þessi tvö ákvæði í frumv., sem nefndina hefir greint á um, en með atkvæðagreiðslunni um þau stendur eða fellur frumvarpið.

Eg og háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) höldum því fram, að haustskoðanir séu til sára lítils, og jafnvel einkis gagns, og að þessu leyti erum við í meiri hl. í nefndinni. Skoðunarmennirnir geta ekki með neinni vissu sagt um það, hve mikil heyin eru, og því síður geta þeir dæmt um gæði þeirra, enda er allvíða fengin reynsla fyrir því, að almenningur fer ekki eftir því, sem haustskoðunarmennirnir segja, eða geta sér til um ásetninginn. Fjáreigendurnir þekkja bezt sjálfir allar ástæður, bæði landgæði og heymagn og heygæði, og þeir mega bezt vita, hvað vel má treysta fjármanninum, bæði um meðferð fjárins, og eins hve notadrjúg heyin muni verða í hans höndum; um þetta tvent geta ásetningsmenn að haustinu lítið sagt ábyggilegt.

Á hina hliðina þá hafa tvær skoðanir töluverðan kostnað í för með sér fyrir sveitarfélögin. Eins og nú stendur, þá er það á nokkrum stöðum, að þessi eina skoðun er gerð borgunarlaust, og það af mjög vel hæfum og völdum mönnum, en ætti nú að fjölga skoðunum, er með því girt fyrir að hæfir menn fáist, nema fyrir fulla borgun, í tvær skoðunarferðir á sama vetrinum. Ennfremur eru það margir bændur, sem enga heyásetnings- eða búpeningsskoðun vilja hafa, og þeim myndi fremur fjölga en fækka, væru þær tvær lögboðnar. Um sektarákvæðið er það að segja, að eg þekki eitt dæmi þess, að sektum hafi verið beitt, og þá var það álit kunnugra manna, að fylsta ástæða hefði verið til að beita þeim, enda er eg nokkurnveginn viss um, að sú áminning hafði mikil og góð áhrif.

Þá er það eitt ákvæði í frumv., sem menn í fljótu bragði máske álíta, að sé til stórbóta; það er ákvæðið í 3. gr., um að skoðunarmenn skuli með ráði beztu manna í hreppnum gera ráðstafanir til þess, að bætt verði úr fóðurskortinum á kostnað fjáreiganda. En eg þekki ekkert dæmi þess, að sá sem annars er í heyþroti fyrir skepnur sínar, hafi neitað aðstoð góðra manna til þess að komast fram úr vandræðunum, og er því þetta ákvæði að þessu leyti þýðingarlaust, en kæmi slíkt fyrir, að fjáreigandi vildi enga hjálp af öðrum þiggja, þótt fóðurskortur væri sjáanlegur, get eg hugsað, að skoðunarmenn hikuðu sér við, að taka ráðin af fullveðja manni, þegar um hans eign er að ræða. Þetta væri líka all nærgöngult við rétt hans, og mundi því tæplega nokkru sinni verða beitt eða koma til framkvæmda. En þegar á það er litið, að skoðunarmönnum er gert að skyldu að annast um að fjáreigandinn fái fóður handa fénaði sínum, þá er það svo, þar sem eg þekki til, að þeir eru hjálplegir í útvegum um fóður fyrir þá sveitunga sína, sem verst eru staddir, enda þekkja þeir auðvitað bezt, hverjir eiga hey aflögu.

Eg er því á sama máli um það og h. þm. Mýr., (J. S.) að frumv. sé fremur til skaða en bóta, og þessvegna eigi að fella það, enda höfum við minni hluti nefndarinnar lagt það til í nefndaráliti okkar, sem hér liggur fyrir þingdeildinni.