09.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

21. mál, búpeningsskoðun og heyásetning

Framsögum. meiri hl. (Jón Jónsson 1. þm. N.-Múl.):

Stéttarbræður mínir líta mjög einstrengingslega á þetta mál. Sumir eru ósamþykkir hegningarákvæðunum, aðrir álíta, að þau séu til bóta. En þetta er ekki aðalatriðið, heldur það, að hafa skoðanirnar tvær. Haustskoðunin er nauðsynleg til leiðbeiningar seinni skoðuninni, sem er lítt framkvæmanleg, nema skoðunarmennirnir hafi séð féð að haustinu. Þar sem fært er frá, eru ær og lömb rýrari en þar, sem ekki er fært frá og það er stórt atriði fyrir bændur að eiga gott og fallegt fé og fara vel með það. Við eigum ekki að horfa í þessa aura, sem skoðunin kostar, því það vinst upp. Það gæti ef til vill verið ástæða til að breyta öðrum ákvæðum frumv., t. d. hverjir veldu skoðunarmennina. Þegar þeir eru valdir af öllum hreppsbúum, getur það viljað til, að kosning þeirra mishepnist. Það væri máske hyggilegra að búnaðarfélögin veldu þá. Eg er sannfærður um, að komist þessar skoðanir á, þá mun þetta verða gróðavegur fyrir bændur.

Þeir háttv. þm., sem talað hafa á móti haustskoðunum, hafa haldið því fram, að ekki sé hægt að dæma um heybirgðir manna á haustin. Það fari svo mikið eftir því, hvað menn séu nazkir að fara með hey og nota beit. En það eru ávalt til menn, sem ekkert vit hafa á því að setja á og það er skylda að taka í taumana hjá þeim og það er ekki gert að óþörfu. Og þeir mundu hlíta úrskurði skoðunarmannanna, heldur en eiga það á hættu, ef illa tekst, að vera sektaðir eða settir í fangelsi.