07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

21. mál, búpeningsskoðun og heyásetning

Eggert Pálsson:

Mér virðist það nú komið á daginn, að mál þetta sé orðið hálfgert vandræðamál. Nefndin, sem við það hefir fengist hefir klofnað í þrent og kom mér það satt að segja ekki á óvænt, að svona færi.

Eg benti á það þegar við 1. umræðu., að það væri eigi gott, að skipa fyrir með lögum um það, hvernig menn skyldu fóðra skepnur sínar, þar sem sín tilhögunin á við í hverri sveit, eftir landsháttum og landsgæðum, og jafnvel í sveitunum innbyrðis, svo að ilt er fyrir skoðunarmenn að meta, hvað séu nægar heybirgðir á hverri einstakri jörð og enginn getur farið nær um það, en ábúandinn sjálfur. Ef gallar eru á í þessu efni er hér er um að ræða, verður, að mínu áliti, einungis úr þeim bætt með aukinni þekkingu og engu öðru.

Í þessu máli er um tvær stefnur að ræða. Önnur er sú, sem eg hallast að, að löggjöfin eigi ekki að grípa hér inn í, eða sem allra minst, og geti það heldur ekki, svo holt sé. Hversu glöggir sem skoðunarmenn eru, geta þeir ekki í byrjun sagt, hve mikið fóður muni nægja á hverri einstakri jörð, nema þeir séu því kröfuharðari og baki þá þar með einstöku búendum tilfinnanlegan og óþarfan kostnað með kröfum sínum. Það er heldur ekki gefið, að hinir vitrustu menn verði jafnan valdir í þessa stöðu, eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) virtist halda. Frumv, sem hér er til umræðu gerir ráð fyrir, að skoðunarmenn séu valdir af hreppsbúum sjálfum, og sömuleiðis að þeim megi, en ekki eigi, að borga 2 kr. á dag. Líkur eru því til þess, að menn kunni að bjóða þetta niður, og þá sennilegt, að farið verði eftir því við valið, hverjir fást fyrir minst kaup, en ekki eftir því, hverjir eru vitrastir og bezt hæfir til verksins, enda mun það víða hafa átt sér stað, og eiga sér stað eftir horfellislögunum, sem nú eru í gildi. Menn eiga sem sé bágt með að fella sig við þá hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir horfellislögunum, og leitast því við að gera þann útgjaldaauka, sem þau baka, sem minstan að hægt er. Menn skilja ekki hina einstrengingslegu áherzlu, sem í horfellislögunum er lögð á það, að skoðun sé gerð á því, hve birgir menn eru að skepnufóðri, en ekki á matarforða handa mönnum, rétt eins og skepnan væri manninum rétthærri.

Í hinum núgildandi hegningarlögum, höfum við að mínu áliti nægileg sektarákvæði við því, ef menn fara vísvitandi illa með skepnur sínar, en að sekta fyrir þær yfirsjónir, sem stafa af óhöppum eða fávizku, á ekki við, því það er hið stakasta ranglæti. Meiri hluti nefndarinnar hefir líka gengið inn á þessa bendingu mína um þetta atriði, sem eg gaf við 1. umræðu og numið burtu sektarákvæðið, en heldur ekki tekið tillit til annara bendinga.

Hvað seinni skoðunina snertir, þá er henni aðallega fundið það til gildis, að skoðunarmenn eigi að áminna menn um að fara betur að ráði sínu og hjálpa mönnum til að ráða fram úr vandræðunum. Skoðun þessi er gert ráð fyrir, að fari fram á tímabilinu frá 1. apríl til 15. maí. Ef skoðun þess fer nú t. d. eigi fram fyr en 14. maí, þá er fénaði eigi við hjálpandi og áminning skoðunarmanna því algerlega þýðingarlaus. Yfirleitt er það sjaldnast að illa fer vegna fóðurskorts, heldur af því, að fóðrið er vont og óholt, sem nota verður. Það er oftast nær auðvelt að bæta úr, ef fóður vantar og varast það, en ef fóðrið er vont, þá er þvínær ómögulegt úr að bæta. Þegar fram á útmánuði líður, kemur einhver limpa í féð, sem á óhollu fóðri hefir lifað, enda þótt það hafi verið nægilegt að vöxtunum, það fer smásaman að týna tölunni, og gerir það minstan muninn, hvort menn kalla það horfelli eða öðrum nöfnum.

Eg álít því réttast eftir atvikum, að frumvarp þetta sé felt, en get þó gjarnan gengið inn á, að það fari til annarar umræðu, til að sjá, hverjar breytingar kunna á því að verða. En úr því er óvíst, að eg greiði málinu atkvæði, nema þær breytingar verði bæði margar og góðar, því eins og eg tók fram, vakir það fyrir mér sem það heppilegasta, að engin sérstök horfellislög væru til, og menn létu sér nægja með sektarákvæði hinna almennu hegningarlaga í þessum efnum.