19.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Framsögum. (Hálfdan Guðjónsson):

Þar sem þetta er framhald 1. umr. finn eg eigi ástæðu til að fara mörgum orðum um frumv. Eg vil að eins benda á, að hér er um nauðsynjamál að ræða og er það bæði viðurkent af bændum og stjórn landsins, sem sýnir sig á því, að hún hefir lagt stjórnarfrumvarp um þetta efni fyrir þingið, sem fer í þá átt að leggja enn á ný út í lækningaleiðangur á móti þessum vágesti, fjárkláðanum. Eg ætla ekki að þessu sinni að fara að telja upp ástæður fyrir því, að nú á enn þá að hefjast handa í þessu nauðsynjamáli, en vil leyfa mér að benda háttv. þm. á athugasemdirnar aftan við stjórnarfrumv., bækling Magnúsar Einarssonar dýralæknis, sem hefir verið útbýtt hér í deildinni, og í þriðja lagi á nefndarálit okkar, þar sem við höfum reynt að gera ljósa grein fyrir því, hve mikil ástæða er til þess, að málið verði tekið til meðferðar enn á ný. Það mætti ætla, að skoðanirnar hafi verið nokkuð skiftar í nefndinni, þar sem 3 af 5 nefndarmönnum hafa skrifað undir álitið með fyrirvara, en svo var þó í raun og veru ekki, því að það var að eins í óverulegum smáatriðum, sem á milli bar. Allir vorum við sammála um, að þetta væri nauðsynjamál, sem ætti að fá framgang.

Háttv. meðnefndarmenn mínir munu líklega nú eða við næstu umræðu gera grein fyrir því, sem á milli bar.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um málið að sinni. Eg veit að háttv. deild tekur því svo vel, að hún samþykkir að láta það fara til 2. umr. Hvort hún er nefndinni sammála um aðferðina til þess að útrýma fjárkláðanum, veit eg ekki, enda er það ekki aðalatriðið fyrir okkur, hvort frumvarpinu verði breytt dálítið eða ekki, heldur hitt, að frumvarp með líkri stefnu komist í gegnum þingið og verði til þess að útrýma kláðanum.

Eg skal geta þess, áður en eg sezt niður, að 2 prentvillur hafa slæðst inn í álitið, önnur dálítið meinleg, þar sem hún raskar meiningu. Hún er í 2. gr. álitsins. Þar hefir fallið niður orðið »samtímis« á undan »því sem næst.« Hin prentvillan er á bls. 2, þar stendur »ráða til alvarlegra breytinga á frv.«, en á að vera »til allverulegra o. s. frv.« Þessar prentvillur hafa ekki verið leiðréttar á skrifstofunni, og því neyddist eg til að benda á þær nú.