22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Framsögum. (Hálfdan Guðjónsson):

Um þetta frumv. urðu engar verulegar umr., þá er það var hér síðast til umræðu í háttv. deild. Var þá að eins skýrt frá tilgangi þess og þörfinni á því og vitnað í nefndarálitið. Nú þykir því víst rétt, að grein sé gerð fyrir breytingartillögum þeim, er fram hafa komið frá nefndinni. Stjórnin ætlaðist til, að fjárkláðanum væri útrýmt með böðum, er færu fram á kostnað landssjóðs og að hann svo ynni upp kostnaðinn með því, að lagður yrði tollur á ull. Nefndin er mótfallin ullartolli. En hins vegar lítur hún svo á, að eftir hag landssjóðs sé ekki fært að láta hann bera þennan kostnað endurgjaldslaust. Vill hún að fjáreigendur sjálfir beri kostnaðinn beinlínis. Hins vegar verður því þó ekki neitað, að vel ætti við, að landssjóður bæri þennan kostnað, því að það gæti orðið honum óbeinlínis til tekjuauka, með því að gjaldþol landsmanna mundi aukast við það, að sauðfjárræktin væri efld. Sumir nefndarmanna hafa skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Stafar það fremur af því, að þeir hefðu heldur kosið önnur ákvæði í smærri atriðum en hinu, að á milli beri um aðalstefnu frumvarpsins.

Breytingartillögunni á þgskj. 682, er eg í rauninni ekki andstæður, nema af því einu, að eg er hræddur um, að hún kunni að verða frv. að falli. Og það teldi eg skaða.

Vona eg, að háttv. deild sjái að hér er um nauðsynjamál að ræða, og skal eg ekki að þessu sinni fara fleiri orðum um það.