24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Sigurður Sigurðsson:

Mál þetta um útrýming fjárkláðans er óneitanlega mikið vandamálefni. Það urðu um það allmiklar umræður við 2. umr. þess hér í deildinni. En þrátt fyrir þær umræður, og langt nefndarstarf nefndarinnar í málinu og allítarlegt nefndarálit, virðist mér þó að málið sé enn helzt til lítið athugað. Einkennilegt er það, að þrír af nefndarmönnunum hafa skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, og sýnir það bezt, að þessir háttv. þm. hafa ekki verið og eru ekki ánægðir með frumv. eins og það er.

Í frumv. því er stjórnin lagði fyrir þingið í öndverðu, er svo ráð fyrir gert, að allan baðkostnað skuli greiða úr landssjóði, annan en kaup kláðalæknanna og baðara, er sýslu- og sveitasjóðum er gert að skyldu að greiða. En breyting hefir orðið á þessu hjá nefndinni. Hún leggur til, að allur baðlyfskostnaður greiðist af fjáreigendum, en kaup kláðalækna og baðara greiðist að eins að hálfu leyti úr landssjóði. Eg geri nú ráð fyrir, að baðlyfskostnaðurinn geti ekki orðið minni en 70 þús. kr. auk flutningsjalds, vátryggingar og ýmis annars kostnaðar. Kaup kláðalækna og baðara hefir nefndin áætlað 40—50 þús. kr. og helming þess kostnaðar eiga fjáreigendur að greiða. Hér er því að ræða um að minsta kosti 100 þús. kr. skatt, sem lagður er á sauðfjáreigendur landsins með þessu frumv., ef það verður samþykt. Auk þessa kostnaðar hefir þessi ráðgerða tvíböðun í för með sér ýms útgjöld önnur fyrir fjáreigendur, svo sem vinnu þeirra við baðanir, heyeyðslu o. fl. Nú er á það að líta, hvað vinst við þessa ráðstöfun. Eftir kenningum fróðra manna á hér að vera um algerða útrýming á fjárkláðanum að ræða. Mér er spurn: Hvaða trygging er fyrir því, eg kannast við það, að tvær baðanir eru áhrifameiri en ein böðun, og að því leyti er meiri trygging fyrir útrýming kláðans, en ef baðað er að eins einu sinni. En fullkomin óyggjandi trygging er það engan veginn. Ein böðun, þegar um kláðaveikt fé eða fé, sem grunað er um kláða, er að ræða, er alls ónóg; það er fyrir löngu viðurkent, og reynslan hér á landi hefir sýnt það og sannað. En tvær baðanir eru heldur ekki áreiðanlegar eða óyggjandi til þess að útrýma eða drepa síðustu maurana.

Mér skildist nú á sumum nefndarmönnum í þessu máli og fleiri þingm. í byrjun þingsins, að þeir aðhyltust þá stefnu, að lögleiða þrifabaðanir um nokkur ár, t. d. 5—10 ár, og eg hefi orðið þess var, að bændur í sumum héruðum landsins aðhyltust þá skoðun. Og það er og verða jafnan skiftar skoðanir um það, hvort sé réttara, eins og nú stendur, að fyrirskipa tvær baðanir. og gera með því tilraun á ný til algerðrar útrýmingar á fjárkláðanum, eða lögleiða þrifaböðun um nokkurra ára skeið. En nú er málinu svo komið, að eigi er um annað að ræða en tvær skyldubaðanir og leggja að mestu leyti kostnaðinn, sem af því leiðir, á fjáreigendur landsins. En hér þykir mér gengið lengra en góðu hófi gegnir í því að íþyngja landsmönnum með kvöðum og þungum álögum.

Fyrir því hefi eg leyft mér að koma fram með breyt.till. við frumv. á þingskjali 726.

Tillagan fer fram á það, að ? hlutar af öllum baðlyfskostnaði greiðist úr landssjóði, en að eins ? hlutar af fjáreigendum. Þetta er, hvernig sem á málið er litið, mjög hógvær og sanngjörn krafa. Þessi ívilnun í baðlyfskostnaðinum er einnig að því leyti sanngjörn, að landssjóður kemur til að njóta góðs, beinlínis og óbeinlínis, af þessari ráðstöfun.

Eg vænti þess, að brtill. minni verði vel tekið, og að menn athugi vel, hvað þeir eru að gera, áður en þeir fella hana. En eg vona, að ekki komi til þess og að tillagan verði samþykt.