18.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

170. mál, ullarútflutningsgjald

Ráðherrann (B. J.):

Eg býst við, að mönnum þyki það nýmæli, að tolla útflutta ull. En eg vil biðja virðul. þingdeildarmenn að taka eftir því, að ætlast er til, að sá tollur standi að eins um stundarsakir, auk þess sem tollurinn er mjög lágur og hann lagður á í sérstökum, ákveðnum tilgangi. Frumv. miðar að því, að ná fé í landssjóð til þess að vinna að algerðri útrýmingu fjárkláðans hér í landi. Markmiðið er, að það verði föst landsvenja, að hreinsa (baða) sauðfé á hverju ári; bændur græða meira á því, hvað ullin batnar, ef baðað er, heldur en þeir kosta til baðananna sjálfra.

Landssjóður hefir þegar lagt út geysimikla fjárhæð, meira en 300 þús. kr. í þeirri miklu skorpu, er gerð var fyrir nokkrum árum til algerðrar útrýmingar fjárkláðanum. Nú þótti ekki á það bætandi öðru vísi en ætla til þess einhverjar aðrar tekjur en alvanaleg landssjóðsgjöld, og því var tekið þetta ráð, að reyna að leggja sérstakan, mjög lágan toll einmitt á fjáreigendur. Það er að vísu hart aðgöngu fyrir þau héruð, þar sem enginn fjárkláði er, að þurfa að greiða jafnan toll af ullinni, eins og fjármiklu héruðin landsins. En þar til liggur það svar, að baðanirnar hafa svo mikinn hagnað í för með sér, hvort sem við er að eiga hinn alkunna, sóttnæma fjárkláða eða ekki, að það væri blindni að vilja ekki greiða þetta litla gjald. Eg býst við, að nefnd hafi verið skipuð í fjárkláðamálið, tel eðlilegast, að þetta frv. fari til þeirrar nefndar, ef virðul. þm. sýnist ekki annað.