13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Eiríkur Briem:

Þegar eg hafði beðið um orðið, hafði háttv. 5. kgk. þm. ekki tekið til máls, en hann tók einmitt fram nokkuð af því sem eg ætlaði að segja.

Háttv. þm. Akureyrar bar fram nýjar ásakanir, er þyrfti langan undirbúning til að svara. Þetta er hin venjulega aðferð, að láta Ísafold hlaupa með ýmsar staðhæfingar, án þess okkur sé gefinn kostur á að kynna okkur málið. Hann nefndi 70 fasteignarveðslán, sem væru meira og minna ófullkomin að tryggingu. Þessu hefir háttv. 5. kgk. svarað. Þegar lánað hefir verið út á hús, hefir ætíð fylgt með heimild fyrir lóðinni. Bankarannsóknarnefndin hefir ekki heldur fundið neitt við þessi lán að athuga og verður hún víst naumast vænd um að vera fyrri bankastjórninni vilhöll.

En það var viðvíkjandi öðru atriði, sem háttv. 5. kgk. tók ekki fram. Það var handveðslánin, að mestu lán út á lífsábyrgðarskírteini.

Bankinn hefir lánað embættismönnum, sem hafa eftirlaunarétt, gegn lífsábyrgðarskírteini og hefir landsstjórnin leyft að launin gengju til bankans. Aftur er lánið greitt út á lífsábyrgðarskírteinið ef maðurinn deyr.

Þetta eru einkar trygg lán, þó þau séu ekki jafngóð beztu fasteignarveðslánum.

En hv. þm. Akureyrar talar um þetta eins og einhverja óhæfu og að tryggingin sé jafnvel einkis virði.

Eg vil nefna sem dæmi um þessi lán, hvernig Statsanstalten for Livsforsikring lánar út á lífsábyrgðarskírteini, en sú stofnun hefir orð á sér fyrir að fara gætilega. Hún lánaði einu sinni Lárusi sýslumanni Blöndal 6000 kr. út á 7000 kr. lífsábyrgðarskírteini, sem hann keypti um leið, en að öðru leyti var trygging í embættislaunum hans.

Svo er þetta borið fram og prentað í Ísafold, að 100 kr. virði sé veðsett fyrir svo svo miklu, eins og lífsábyrgðarskírteini sé einkis virði. Þetta er ekki rétt, því að hjá embættismönnum eru laun og eftirlaun þeirra þar einnig til tryggingar.

Þá nefndi háttv. þm. ýms reikningslán, en maður þarf að þekkja þau til þess að geta borið þetta til baka.

Ísafold var að tala um þetta á laugardaginn; var þá staddur hér maður, sem þóttist þekkja, að þar væri átt við sig. Hann fór í morgun í bankann og borgaði lánið, 4800 kr.

Þetta var eitt af lánum þeim sem áttu að vera töpuð eða tvísýna á að nokkuð hefðist af.

Eg veit að þingdeildarmenn óska að umræðunum verði nú sem fyrst lokið og sleppi eg því að fara lengra út í þetta mál að sinni.