22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

105. mál, íslenskur fáni

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Eg skil ekki, hvernig hæstv. ráðh. (Kr. J.) tekur í þetta mál. Hann talaði um, að við þyrftum að fá viðurkenning annara ríkja fyrir fánanum; en eg veit ekki til, að þess þurfi við, eg held ekki, að það sé siður, að ein þjóðin þurfi að sækja um leyfi til annarar til þess að hafa sérstakan fána. Hver þjóð fyrir sig er einráð um það mál og það eitt ætti að nægja, að tilkynna öðrum þjóðum, að skip okkar sigli framvegis undir þessu merki.

Þá vil eg mótmæla því, að við eigum að hafa þá aðferð, að leita fyrst fyrir oss hjá Dönum; þetta er sérmál að skýlausum lögum og því óþarft og enda óhæfilegt, að fara bónarveginn að Dönum um þetta mál. Vér höfum orð stöðulaganna fyrir því, að siglingar eru íslenzkt sérmál, en fáni er eins óaðskiljanlegur hluti skips, eins og t. d. stýri eða segl. Það tjáir ekki að einblína altaf á það, að Danir vilja ekki viðurkenna rétt vorn, þegar lögin eru ómótmælanlega vor megin. Í þeirra augum verður öll venja að lögum; svo er t. d. um fiskiveiðarnar í landhelgi, vér höfum ekki bannað þeim þær og þessvegna þykjast þeir nú hafa lagaheimild til þeirra. Eins er með fánann; vér höfum þolað Dannebrog hér á landi og nú telja þeir hana hinn eina löglega fána vorn. Hér er tækifæri fyrir ráðherrann til þess að koma einarðlega fram; ef danskir ráðherrar fara að skifta sér af þessu máli, getur hann látið konunginn vita, að hann fari frá völdum, ef hann fái því ekki framgengt. Dönsk áhrif eru altaf hættuleg, en sérstaklega í slíkum málum og verður ráðherra að gjalda varhuga við, að þau vaxi honum ekki yfir höfuð. Eg get ekki skilið, að við lendum í neinum ógöngum út af þessu máli. Þá mætti líka segja, að í ógöngur væri stefnt, ef við vildum útiloka Dani frá fiskiveiðum í landhelgi. Dönum er auðvitað meinilla við bæði þessi mál, en vér stöndum vel að vígi hvað þau snertir, því að lögin eru ótvírætt vor megin.