22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

105. mál, íslenskur fáni

Jón Magnússon:

Það er eitt höfuðatriði þessa máls, sem eg hygg að frsm. (Sk.Th.) hafi misskilð, en það er, að það komi ekki öðrum þjóðum við, hvern fána við höfum. Hann virðist vera ókunnur þeim ákvæðum þjóðaréttarins, sem að þessu lúta, en hann ætti þó að vita, að að eins fullvalda ríki hafa fánarétt. Það er og hin mesta fjarstæða, sem háttv. framsögum. hélt fram, að fáninn væri einn hluti skipsins; fáninn er verndarmerki skipsins, hann gefur til kynna undir vernd hvers ríkis það standi. Ef háttv. framsm. treystir sér til að sanna öðrum þjóðum; að Ísland sé fullvalda ríki, þá fáum vér fánann viðurkendan, annars ekki. Ef Ísland er viðurkent fullvalda ríki, þá þurfum vér ekki annað en »notificera« öðrum ríkjum, að vér höfum tekið fánann upp. Það er alveg rétt hjá framsm. En nú vill svo illa til, að til þess að gera það, þurfum við að notast við danska sendiherra!

Eg held satt að segja, að hinir háttv. flutnm. hafi ekki hugsað þetta mál nógu rækilega.