22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

105. mál, íslenskur fáni

Framsm. (Skúli Thoroddsen):

Það er ekki rétt, að eg sé eini lögfræðingurinn, sem hafi þá skoðun, að fánamálið sé sérmál; Guðlaugur sýslumaður Guðmundsson hefir látið sömu skoðun í ljós. Mér er óskiljanlegt, hvernig menn geta aðhylzt skoðun Dana á þessu máli, svo ótvíræð sem orð stöðulaganna eru í þessu atriði.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að eg mundi ekki hafa hreyft þessu máli, ef eg hefði orðið ráðherra, en eg skil ekki, hvernig hann fer að fullyrða neitt um það. Eg get fullvissað bæði hann og aðra um, að eg hafði hugsað mér að sýna Dönum fulla einurð bæði í þessu máli og öðrum.

Eg vil og fastlega mótmæla því, að þetta mál hafi verið borið fram til þess að stofna núv. ráðherra í vanda, enda vita allir, hvernig efri deild er skipuð, svo að ekki þarf að óttast, að þetta mál verði afgreitt af þinginu. En hins vegar getur málið haft mikla þýðingu inn á við og út á við vekur það eftirtekt á oss. Vér komumst aldrei langt, hvorki í sambandsmálinu né öðrum málum, með því að þegja yfir réttarkröfum vorum. Það væri furðulegt, ef vér værum ekki einráðir um það, hvaða flagg vér notum á opinberum stofnunum hér. Yfir höfuð væri óskandi, að þessi flokkur, sem batt sig í sambandslaganefndinni, hyrfi sem fyrst úr sögunni eða tæki sem fyrst sinnaskifti. Það er von mín, að augu þjóðarinnar opnist bráðlega svo, að hún sjái að slíkur flokkur má ekki haldast við.