22.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

105. mál, íslenskur fáni

Jón Þorkelsson:

Eg stend upp til að mótmæla orðum háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.), sem voru ófyrirleitin að vanda. Hann sagði, að frumv. væri framborið í því skyni að gera núveranda ráðherra óleik, en taldi, að það mundi ekki hafa fram komið, ef háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefði orðið ráðherra. Eg get fullvissað háttv. þm. um það, að frumv. hefði fram komið, hver sem í ráðherrasessi hefði setið. Get eg þessa til þess, að það sjáist jafnframt staðhæfingum hans og ófyrirleitni.

Það hefði mátt vera ástæða til að fara út í ýmislegt, sem sagt hefir verið, en ekki mun eg þó gera það. Að eins út af orðum háttv. 1. þm. Eyf. (H. H), er hnigu á þá lund að gera gys að oss fyrir það, að vilja fá flagg, en eiga ekki skip sjálfir, skal eg taka það fram, að vér viljum fá fánann til þess, að skipin sigli ekki undir fölsku flaggi. Þennan rétt vorn viljum vér fá viðurkendan, en fáum ekki nema vér leitum hans með fullri dirfsku. Er svo með alt, sem vér höfum sækja þurft úr höndum Dana. Seint mundum vér hafa fengið fjárforræði, ef vér hefðum ekki leitað eftir því sjálfir.

Eg skal ekki fara út í það, hversu skilja eigi stöðulögin, þótt gaman sé að heyra lögfræðinga greina á, eins og vant er, og vera að reyna teygja úr þeim sinn skilninginn hvor. Eg felli mig betur við skýringu háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th) en 1. þm. Eyf. (H. H.).

En um leið og eg enda mál mitt nú, get eg ekki látið vera að minnast orða háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) í vetur á fundi hér, þeirra, er hann mælti, að flagg vort ætti að vera rautt með hvítum krossi.