25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

105. mál, íslenskur fáni

Jón Magnússon:

Við 1. umræðu þessa máls gat eg þess, að eftir því sem álitið væri í þjóðarétti, þá væri að eins þeim ríkjum, sem viðurkend væru fullvalda ríki heimilt að hafa sérstakan fána. Háttv. frsm. (Sk. Th.) dró það í efa, að þetta væri annað en fyrirsláttur hjá mér og skoraði á mig að sýna sér þetta í einhverri viðurkendri bók í þjóðréttarfræði. Eg hefi nú sýnt háttv. framsögumanni þennan stað í handbók, sem viðurkend er um allan heim, sem mjög ábyggileg og áreiðanleg bók. Þar stendur svo um rétt flaggsins: »Trygging fyrir réttmæti siglinga geta ekki veitt einstaklingar eða félög. Fullvalda ríki ein geta veitt slíka trygging. Af þessu leiðir, að hver sá, er gefur sig við siglingum, verður að njóta verndar fullvalda ríkis«. Má vera að vér getum litið svo á, að Ísland sé fullvalda ríki, en það er ekki nóg. Það verður að vera viðurkent fullvalda ríki, til þess að það fái fullgilt flagg, en það er því miður ekki hægt að segja, að fullveldið sé viðurkent. En eins og áður er sagt, er þjóðernisflaggið ytra tákn þess, að skipið tilheyri sérstöku fullvalda ríki. Það má nú segja, að þetta séu ekki lög fyrir okkur, og það er að vísu svo, að þetta eru ekki lög, sem dómstólar geta dæmt eftir, en það eru reglur, sem eru fastákveðnar í hinum »praktiska« þjóðarrétti. Eg skal fyllilega játa, að eg hefi alla samhygð með þessu máli, en þessari aðferð, er hér er viðhöfð, er eg alveg á móti, verð að álíta að hún sé alveg óforsvaranleg, og þess vegna get eg ekki greitt atkvæði með málinu lengur, eins og það nú horfir við. En það verður að fara með málin með einhverjum snefil af skynsemi, og á meðan okkar eigin skip eru skrásett sem eign

annarar þjóðar, og meðan við ekki höfum sérstakan borgararétt, þá hlýtur hverjum manni að skiljast, að það er hreint og beint óhugsandi, að við getum haft sérstakt flagg.

Það verður að byrja á því, að fá viðurkendan íslenzkan borgararétt, og þar næst að fá skip okkar skrásett sem íslenzka eign. Fyr en málið er þannig undirbúið, get eg ekki greitt atkv. með því. — Það verður helzt að byrja á undirstöðunni, en ekki eins og sagt er neglunni, áður en farið er að byggja skipið.