25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1616 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

105. mál, íslenskur fáni

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen); Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) gat þess, að fáninn flytti með sér rétt ríkisins út um höfin. Einmitt þess vegna mega skip vor ekki nota Dannebrog, því að ef þau gera það sigla þau með lygina landa á milli. Það er satt, að inn í íslenzka löggjöf hafa smeygst tilvitnanir til Dannebrog sem íslenzks flaggs, en þetta hefir eins og margt annað skapast af venju og er engum örðugleikum bundið að breyta því. Þá spurði hinn háttv. þm., hvað vér ættum að gera, ef Danir ekki vildu viðurkenna fána vorn. En eigum við að gera ráð fyrir slíku ranglæti af Dönum? Það er eins og að gera ráð fyrir, að bæjarfógetinn hér í Reykjavík eða ráðherrann neiti að gera skylduverk sín. Oss er bezt að fara rólega að öllu og óttast ekki að óþörfu, — koma dagar koma ráð. að vísu erum vér lítilmagnar, en vér komumst aldrei langt áleiðis, ef vér altaf einblínum á það. Þar með tel eg þessari spurningu fullsvarað. Eg vil ekki gera ráð fyrir, að ríkisráðið fari að skifta sér af þessu máli, því að það verður aldrei hrakið, að það heyrir undir íslenzkt löggjafarvald, enda vona eg að Danir viðurkenni það.