24.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

122. mál, frestun aðflutningsbanns

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Enda þótt eg sé ákveðinn mótstöðumaður bannlaganna, þá getur þetta frumv. þó ekki frá því sjónarmiði verið mér kærkomið. Eg sé ekki, að við bannandstæðingar stöndum nokkru nær okkar marki, þótt þetta frv. verði samþykt. Eg styð það að eins vegna þess, að eg álít það nauðsynlegt til þess að

fjárhagur landssjóðs geti verið viðunanlegur.

Eg get ekki skilið það, hvernig háttv. þm. Barð. (B. J.) komst að þeirri niðurstöðu, að frestun á framkvæmd þessara laga, væri sama og afnám þeirra. Mér er það ekki skiljanlegt, að þeim lögum sé stofnað í nokkra hættu með þessu frv., nema það vaki fyrir háttv. þm., að samþykt frv. geti leitt til þess, að málið verði borið undir atkvæði þjóðarinnar að nýju, eins og kom fram tillaga um á seinasta þingi og var bannmönnum mjög á móti skapi. Frá því að þeir náðu yfirtökunum, vegna þess, að meiri hluti þjóðarinnar glæptist til að greiða bannstefnunni atkvæði, þá nota þeir sér það svo, að þeir mega ekki heyra það nefnt á nafn, að þjóðin fái að segja eitt orð um málið framar. Það er undarlegt, hvað þeir eru hræddir við það, ef þeir trúa svo mjög á sinn góða málsstað, eins og þeir látast gera. Þetta frv. er komið frá stuðningsmanni bannlaganna, vegna þess að fjárhagur landsins heimtar það og fjárhagurinn heimtar það af því að fráfarandi ráðherra vanrækti það, sem hann var skyldugur til að gera, að koma með einhverjar tillögur um það, að auka tekjur landssjóðs svo, að eitthvað kæmi upp í hið stóra skarð, sem bannlögin gera í tekjurnar. Háttv. þm. Barð. (B. J.) ætti því að vera þetta frv. kærkomið, það breiðir þó dálítið yfir yfirsjónir hans. Að eins vil eg benda á það, að mér og öðrum bannandstæðingum er frv. þetta alls ekki kært, vegna þess að við erum á móti bannlögunum. Við lítum svo á, að þau lög séu svo vaxin, að eina ráðið til þess að losna við þau, sé að láta þau sem fyrst ganga í gildi. Þetta bannfargan er nokkurs konar sjúkdómur, sem heppilegast mundi vera að framkalla sem fyrst »krisis« í. En eg tel mér samt, fjárhagsins vegna, skylt að styðja þetta mál.

Að öðru leyti skal eg ekki fara fleirum orðum um það, en eg verð, til þess að útiloka allan misskilning, að taka þetta fram, að það er að eins fjárhagsins vegna, en ekki af því eg er bannandstæðingur, að eg greiði þessu frumv. atkvæði mitt.